139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að stefnan sé ekki óljós. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu hvert beri að stefna og hverju beri að hlífa í þeim viðkvæma málaflokki sem heilbrigðisþjónustan er. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir á að hlífa grunnþjónustunni, heilsugæslunni og líka Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Niðurskurðurinn er að mestu leyti tekinn út á sjúkrasviði.

Það kemur líka fram í fjárlagafrumvarpinu, svo það sé alveg skýrt, að þessar tillögur verði endurskoðaðar á milli 2. og 3. umr. Þær kröfur sem gerðar voru til heilbrigðisráðuneytisins um 4,7 milljarða kr. niðurskurð hafa verið dregnar niður í 3 milljarða kr. Það er búið að létta um 1,7 milljarða kr. sem verður gert með þeim breytingum sem nú eru gerðar. Þetta er ekki létt verk og þetta er viðkvæm starfsemi.

Þar sem tíminn er skammur vil ég nefna aðeins St. Jósefsspítala sem hér var sérstaklega nefndur. Það er alveg rétt að í þeim breytingartillögum sem fram hafa komið er þeirri stofnun ekki hlíft eins og mörgum öðrum. Það kemur til af því að sú stofnun hefur þróast frá því að vera almennt sjúkrahús í mjög sérhæfða þjónustu, en það er sérhæfð þjónusta sem er mjög mikilvæg. Hún er faglega góð og hvergi stunduð með sama hætti og á St. Jósefsspítala þannig að ég tel það mikilvægasta fram undan vera að tryggja þá þjónustu áfram við þá sjúklingahópa sem að henni snúa.

Ég tel líka að það liggi á að fá úr því skorið og sjá þá mynd fyrir sér hvernig starfsemi St. Jósefsspítala á að vera. Á að vera sameining við Landspítalann? Á að vera annars konar sameining? Á að vera stærri sameining? Á að fara í Kragaverkefnið? (Forseti hringir.) Þetta verður að fara að liggja fyrir.