139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að eiga orðastað við sama hv. þingmann og var hér áðan og hann staðfesti það sem hefur komið fram, það er fullkomið stjórnleysi í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Fyrir tveimur árum voru 100 sérfræðingar um allt land að vinna að breytingum. Þeim var öllum sagt upp störfum, ef þannig má að orði komast, og núna sjáum við að í síðustu viku komu einhverjar tillögur frá ríkisstjórninni um breytingar á fjárlögum og þar af leiðandi breytingar á þessari framkvæmd. Ég vildi fá að vita hvenær við í hv. heilbrigðisnefnd fáum að sjá þetta.

Ég kvartaði undan því í síðustu viku að við værum að ræða tillögur fyrir fjárlaganefnd sem allir vissu að væru úreltar um leið og við ræddum um þær. Í ofanálag hefur það komið fram í umfjöllun nefndarinnar að kostnaðargreining sem er grunnurinn að því að menn geti tekið góðar ákvarðanir í heilbrigðismálum er í fullkomnum lamasessi. Það hefur sömuleiðis komið fram að Sjúkratryggingar Íslands eiga að spara um 3 þús. millj. kr.

Á ég að segja ykkur hvernig það er gert? Það hefur bara enginn hugmynd um það. Fyrir nákvæmlega ári spurðumst við fyrir um sambærilegar sparnaðarkröfur á Sjúkratryggingar Íslands, fengum engin svör og á endanum hirti Ríkisendurskoðun fyrrverandi hæstv. ráðherra fyrir að hafa ekki komið með neina stefnu í þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvenær núna á þessum síðustu dögum þingsins eiga nefndir þingsins að fara yfir þessi mál? Eða stendur það til? Ætlar meiri hlutinn að samþykkja hér fjárlagafrumvarp hvað varðar heilbrigðismálin án þess að nokkur viti hvernig á að framkvæma þann þátt málsins?