139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil líkt og formaður Framsóknarflokksins ræða hér efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé ekki seinna vænna en núna á síðustu dögum þingsins fyrir jólahlé að við tökum þá alvarlegu umræðu.

Nú er það ljóst að búið er að afskrifa svo tugum milljarða skiptir skuldir stærstu fyrirtækja landsins innan bankakerfisins. Eftir hafa staðið smáu fyrirtækin í landinu og þau millistóru að ógleymdum íslenskum heimilum. Þessir aðilar hafa staðið eftir í kjölfar efnahagshrunsins og við þessum fyrirtækjum og við heimilunum blasir gríðarlegur skulda- og greiðsluvandi sem verður að leiðrétta með einhverjum hætti.

Ég tók eftir því að hv. formaður viðskiptanefndar tekur undir þau sjónarmið að þessi stefna gengur ekki upp. Ég held að við getum þá leitt líkur að því að ekki sé meiri hluti á Alþingi fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin rekur hér, að ríkisstjórnin hafi einfaldlega ekki þingmeirihluta fyrir þeirri efnahagsstefnu sem hún hefur rekið, sem er í stuttu máli sú að hækka skatta og skera með blóðugum hætti niður.

Við þurfum einhvern veginn að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Þess vegna er mikilvægt að fólk úr röðum stjórnarliða sjái það sem allir aðrir sjá nema ríkisstjórnin í þessu samfélagi og þar er ég að tala um hagdeild Alþýðusambands Íslands, Samtök atvinnulífsins og fleiri og fleiri greiningaraðila sem segja að þessi stefna gangi hreinlega ekki upp. Þess vegna verðum við núna á síðustu dögum haustþingsins að leiðrétta þessa stefnu. Við þurfum að efla trú fólksins á framtíðinni hér á landi. Við þurfum að fara að fjölga störfum. Þessi stefna er löngu úrelt og gengur ekki upp. Ég er sammála formanni Framsóknarflokksins í þeim efnum og hv. formanni viðskiptanefndar Alþingis. Við þurfum að fara í vinnu til að vinda ofan af þeirri vitleysu sem hefur verið í gangi hér (Forseti hringir.) og, frú forseti, ég fer fram á að við sameinumst um þessa stefnu hér í þinginu.