139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í skriflegu svari félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn minni um hver væru opinber framfærsluviðmið kom fram að ekki eru til nein opinber samræmd framfærsluviðmið á Íslandi. Í svarinu kom einnig fram að í ráðuneytinu er unnið að gerð framfærsluviðmiðs og neysluviðmiðs og er sú vinna vel á veg komin og er stefnt að því að þau taki gildi fyrri hluta næsta árs.

Einnig kom fram að lífeyrisþegar Tryggingastofnunar ríkisins eru með lágmarksframfærslu að upphæð 180 þús. kr. á mánuði. Til samanburðar er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga 126 þúsund, atvinnuleysisbætur 150 þús., lágmarkslaun 165 þús., skattleysismörk 124 þús. og framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna 121 þús. á mánuði. Það er frumskylda okkar sem siðaðs samfélags að tryggja öllum þjóðfélagsþegnum lágmarksafkomuöryggi og það á ekki síst við á þessum erfiðu tímum. Það er því brýnt að nýr framfærslugrunnur endurspegli raunkostnað við eðlilega lágmarksframfærslu og komi í veg fyrir að fólk þurfi að standa í biðröðum og treysta á framfærslu hjálparsamtaka og geti lifað með reisn við þær aðstæður sem það býr við og eru oft tímabundnir erfiðleikar sem valda.

Sú umræða og samanburður á atvinnuleysisbótum og lágmarkslaunum á þann veg að bætur megi ekki hækka og færast of nálægt lágmarkslaunum því að það geti verið vinnuletjandi segir okkur bara eitt, að lágmarkslaun í landinu eru allt of lág. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) Nú verða aðilar vinnumarkaðarins að sameinast um að hækka lágmarkslaun því að allt of margir eru komnir niður á þessa lágu strípuðu taxta. Ég segi við þau fyrirtæki sem geta ekki staðið undir hækkun lágmarkslauna að þau hafi þá ekki raunhæfan rekstrargrundvöll. Og það samfélag sem ekki getur (Forseti hringir.) tryggt þegnum sínum sómasamlegt afkomuöryggi þarf að forgangsraða upp á nýtt og sjá til þess að fátækt festi ekki rætur á Íslandi.