139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sat fund allsherjarnefndar í gær þar sem umboðsmaður kom og kynnti skýrslu sína fyrir árið 2009. Í þeirri skýrslugjöf koma fram nokkuð alvarlegar athugasemdir því að þar segir að Alþingi hafi ekki tekið til afgreiðslu skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árin 2007 og 2008 og nú liggur fyrir skýrsla fyrir árið 2009. Ég skora því á forseta og forsætisnefnd að bæta úr þessu því að umboðsmaður Alþingis er ein meginstoð eftirlitskerfis Alþingis.

Með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og setningu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, átti að tryggja betur réttaröryggi borgaranna og stjórnsýslulögin og löggjöf sú sem gildir um störf og embætti og starfshætti umboðsmannsins eru þannig ákveðin tæki og tól sem nota má til að treysta undirstöður réttarríkisins.

Tvær meginathugasemdir koma fram í skýrslunni að þessu sinni eins og í fyrra, þ.e. nauðsyn skýrrar lagasetningar þegar um stjórnarskrárvarin réttindi er að ræða og nauðsyn skýrrar afstöðu löggjafans um mörk opinbers réttar og einkaréttar, eins og t.d. hvar skilanefndirnar liggja á milli þeirra réttarsviða.

Umboðsmaður Alþingis fjallar einnig um meinbugi á lögum og í skýrslunni frá 2009 hefur hann gert athugasemdir við fimm atriði um meinbugi á lögum. Ég hvet þingmenn til að ganga í takt hér eftir sem hingað til. Ég hef lagt fram frumvarp um stofnun lagaskrifstofu Alþingis til að hér megi fara fram faglegt starf. Ég hvet framkvæmdarvaldið til að endurskoða þær áherslur sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu. Nú verðum við að setja aukið fjármagn í að styrkja stoðir Alþingis bæði faglega (Forseti hringir.) og fjárhagslega, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, Heyr!) Oft er þörf en nú er nauðsyn.