139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

svör við fyrirspurn.

[14:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil undir þessum lið hvetja hæstv. forseta til að sinna aðhaldshlutverki þingsins betur en raun ber vitni. Ég er hér enn að bíða eftir svari frá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni er varðar starfsráðningar í ráðuneytum. Þetta er svipuð fyrirspurn og ég beindi til ríkisstjórnarinnar fyrir um ári (Gripið fram í.) þar sem ég spurði um ráðningar án auglýsinga sem ég held að viðgangist því miður enn í allt of miklum mæli í stjórnsýslunni. Ég fer fram á það við frú forseta að hún veiti hæstv. ráðherra það aðhald og sjái til þess að þeir fari eftir þeim þingsköpum sem við höfum samþykkt hér þannig að þessari fyrirspurn minni verði svarað hið fyrsta. Nú er desembermánuður að renna upp og mikilvægt fyrir okkur að veita framkvæmdarvaldinu það aðhald sem því ber. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er löngu hættur að hlusta á þessa ræðu mína hér, (Utanrrh.: Nei, það …) en ég hvet hann og aðra ráðherra í ríkisstjórninni til að virða þingsköpin og svara þeim fyrirspurnum sem við þingmenn leggjum fyrir þá.