139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa okkur um sjónarmið sín í sambandi við málið. Það sem kemur mjög glögglega fram í ræðu hæstv. ráðherra er að hér er um að ræða skýra og afdráttarlausa stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar um að hætt skuli að greiða það mótframlag sem greitt hefur verið í 40 ár í Lífeyrissjóð bænda. Það mun hafa gríðarlega mikil áhrif á kjör bænda. Þegar menn semja um þessa hluti á vettvangi verðlagsnefndar búvöru og eins þegar menn hafa gert búvörusamninga er ljóst að þeir hafa haft í huga þær greiðslur sem komið hafa frá hinu opinbera inn í Lífeyrissjóð bænda. Það hefur því haft áhrif á samningsniðurstöðuna á þeim tíma í gegnum tíðina.

Nú er hins vegar orðið ljóst að hæstv. ríkisstjórn telur sérstaka ástæðu til að hverfa frá þessum greiðslum. Þetta eru mjög miklar greiðslur. Ég vakti athygli á því strax við 1. umr. fjárlaga í byrjun októbermánaðar og spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þessi mál. Hann staðfesti að svo væri. Hann vakti athygli á því að til þess að standa undir nokkurn veginn óbreyttu fyrirkomulagi án þess að það hefði áhrif á kjör bænda þyrfti verðlagið að hækka um 2%.

Við vitum öll að það eru engar forsendur fyrir slíkum hækkunum við þessar aðstæður núna, alla vega eru mjög erfiðar aðstæður til þess. Bændur hafa þegar tekið á sig heilmiklar skerðingar, bæði vegna búvörusaminganna og einnig vegna þess að þeir hafa haldið aftur af sér í hækkunum á verðlagi.

Það sem blasir við er eftirfarandi:

Verið er að framkvæma 9% sérstaka og varanlega skerðingu á kjörum bænda. Það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur, sama hvernig á málin er horft. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að reynt sé að verja búvörusamningana, en þeir hafa þegar verið skertir, það vitum við, en þessi tíðindi fela í sér 9% varanlega skerðingu á kjörum (Forseti hringir.) bænda. Það er mjög alvarlegur hlutur.