139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[14:56]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkið hefur greitt mótframlag sem atvinnurekandi á móti bændum sem launþegum um langan tíma. Það fyrirkomulag hefur verið hluti af samskiptum ríkis og bænda og þeirri pólitísku stefnu sem fylgt hefur verið í málefnum landbúnaðarins þvert á flokka án þess þó að um það hafi verið samið eða lagaskylda hvílt á ríkinu. Aðkoma ríkisins hefur verið með þeim hætti að Fjársýsla ríkisins hefur innheimt iðgjöld og mótframlög af beingreiðslum bænda sem þeirra njóta. Þeir hafa því ekki þurft að senda sérstakar skilagreinar vegna mótframlagsins. Það fyrirkomulag á eingöngu við um þá bændur sem reikna sér laun. Lögaðilar, þar sem búrekstrarformi er þannig háttað að aðilar að búrekstrinum fá greidd laun mánaðarlega, hafa hins vegar skilað iðgjöldum og mótframlagi beint til sjóðsins.

Í frumvarpi til fjárlaga sem bíður afgreiðslu hér á Alþingi er gert ráð fyrir því að ríkið sem greitt hefur mótframlag sem atvinnurekandi, greiðir tæpar 300 milljónir sem eingreiðslu inn í Lífeyrissjóð bænda. Með þeim hætti lýkur aðkomu ríkissjóðs á þeim greiðslum og kemur ekki til frekara framlags af hálfu ríkisins í Lífeyrissjóð bænda. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram var haft samráð við bændur um lyktir þessa máls með framangreindum hætti. Það er þó ekki þar með sagt að full sátt sé um það af hálfu bænda og skiljanlegt að um það séu skiptar skoðanir. Það er ljóst að bændur taka með þessu á sig kjaraskerðingu sem nemur því framlagi sem ríkið hefur til þessa innt af hendi í lífeyrissjóðinn, þ.e. 8% mótframlag atvinnurekenda.

Ég vil að lokum benda á í þessu samhengi að í almennri umræðu og oft í umræðu um Evrópusambandið hafa ýmsir haldið því fram að bændur hafi notið sérstakrar verndar ríkisins varðandi kjör sín, þótt sú sem hér stendur hafi ekki tekið undir þau sjónarmið.