139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[15:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég endaði ræðu mína áðan á að segja að grunnur greinarinnar væri að verulegu leyti tryggður með því að standa vörð um búvörusamninginn sem er verðtryggður og hlýtur að skipta bændur og búalið verulega miklu máli. Ég fagnaði því alveg sérstaklega af því að ég hef alltaf greitt atkvæði með gerð búvörusamninga þau átta ár sem ég hef verið á Alþingi og alltaf staðið mjög vörð um þessa grein. Búvörusamningarnir, framleiðslustyrkirnir, beingreiðslurnar til bænda ásamt ákveðinni tollvernd fyrir aðrar greinar eru að mörgu leyti grundvöllur greinarinnar. Á því fyrirkomulagi hvílir greinin. Þess vegna er mjög viðkvæmt að hrófla við undirstöðunni, sérstaklega á erfiðum tímum þegar aðföng og annað umhverfi bænda eins og annarra atvinnurekenda og heimili í landinu hafa orðið fyrir áföllum. Þess vegna fagnaði ég því að hæstv. ráðherra hefði haft samráð við greinina þegar kom til þess að þurfti að forgangsraða um hvernig málum skyldi komið fyrir við þessa fjárlagagerð. Það hefur verið valið að standa vörð um búvörusamningana. Þess vegna undraðist ég líka mjög ræðu hjá hv. þingmanni, formanni Framsóknarflokksins, sem eyddi held ég helmingnum af tíma sínum í að dylgja um að þingmenn Samfylkingar og jafnaðarmanna legðu megnið af tíma sínum í að hafa horn í síðu bænda og þrengja að stöðu þeirra. Þetta er fráleitur málflutningur. Ég hvet hv. þingmann til að fara í gegnum atkvæðagreiðslu síðustu 10 ára, til að nefna eitthvert tímabil, og sjá hvernig þingmenn jafnaðarmanna hafa greitt atkvæði þegar gerðir hafa verið búvörusamningar við bændur sem eru algjört grundvallaratriði til að standa vörð um þessa viðkvæmu og mikilvægu grein.