139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leggja örfá orð í belg vegna þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar eftir að hv. nefnd tók málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. Ég vil nota tækifærið og þakka nefndinni og hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, fyrir að taka málið til efnislegrar umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Ég vakti athygli á því í andsvari við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur við 2. umr. málsins að Hæstiréttur hefði fellt dóm í máli ábyrgðarmanna sem varðaði stöðu þeirra ábyrgðarmanna sem gengið hefðu í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldbindingum aðalskuldara og réttarstöðu kröfuhafa gagnvart þeim út frá ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ég velti því fyrir mér hvort sá dómur hefði einhver áhrif á ákvæði þessa frumvarps og hvort taka þyrfti tillit til dómanna við meðferð þessa máls. Það hefur nefndin nú gert. Eftir því sem mér heyrðist á hv. þingmanni þegar hún fór yfir framhaldsnefndarálit nefndarinnar sem allir hv. nefndarmenn skrifa undir, hefur sá dómur ekki áhrif á efnisatriði þessa máls. Ég þakka fyrir þá yfirferð. Eftir stendur hins vegar að menn þurfa að komast að einhverri niðurstöðu um stöðu þeirra ábyrgðarmanna sem leitað hafa greiðsluaðlögunar. Eftir því sem mér skildist á ræðu hv. þingmanns hafa hv. nefndarmenn komist að þeirri niðurstöðu að það vandamál verði helst leyst með samkomulagi við fjármálastofnanir. Það er von mín eins og annarra að slíkt samkomulag náist þannig að núverandi fyrirkomulag leiði ekki til þess að fleiri lendi í súpunni en ástæða er til. Þá á ég við skuldavanda og greiðsluvanda. Nú veit ég svo sem ekki hversu fús fjármálafyrirtækin eru til að ganga til samninga, en við skulum vona að viðhorfin innan fjármálafyrirtækjanna séu þannig að menn sjái sér hag í því og sjái þá nauðsyn sem þjóðfélagið hefur af því að ekki sé gengið að ábyrgðarmönnum skuldbindinga vegna skulda þeirra sem leitað hafa eftir greiðsluaðlögun, þannig að menn fái fullnustu krafna sinna bakdyramegin, ef svo má segja.

Ég vildi bara nota tækifærið í þessari stuttu ræðu til að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og nefndarmönnum öllum fyrir að taka málið til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og fyrir að gefa þessum atriðum gaum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi forsögu lagasetningarinnar um ábyrgðarmenn og þeirra ábendinga sem komu fram við meðferð þess máls á þinginu en ekki var tekið tillit til. Þar bera auðvitað margir ábyrgð, en ég held að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þá eigi að vera okkur víti til varnaðar þegar farið verður yfir þann málaflokk sem frumvarpið varðar.