139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir allt sem hv. þingmaður sagði. Mér falla mjög vel þau sjónarmið sem þarna komu fram gagnvart því sem fram kom í máli mínu og sömuleiðis hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.

Það var eitt atriði sem hv. þm. Íris Róbertsdóttir nefndi sem er auðvitað hárrétt og tengist ekki beint þessari lagasetningu heldur lagasetningu um skuldavanda heimila og fyrirtækja almennt. Það er að þau frumvörp sem farið hafa í gegnum þingið hafa fengið býsna harðsoðna og hraðsoðna meðferð. Dæmin sanna að hér hafa orðið mistök, ekki bara vegna þess að dómstólar hafa talið ákvæði frumvarpanna og laganna brjóta í bága við grundvallarlögin, ákvæði stjórnarskrárinnar, heldur einnig vegna þess að ýmis atriði hafa fallið milli skips og bryggju og frumvörpin hafa ekki öll náð fram þeim markmiðum sem að var stefnt annars vegar. Hins vegar hafa ýmsir aðilar talið að með þeim lögum sem sett hafa verið varðandi skuldavanda fyrirtækja og heimila hafi verið brotin réttur á ýmsum hópum þessa samfélags.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á og lagt fram frumvörp um að öll dómsmál í svokölluðum hrunmálum fái flýtimeðferð í dómskerfinu. Ég lagði það til, bæði í sumar og í upphafi þessa þings, að þeim málum verði hraðað í gegnum dómskerfið vegna mikilvægi þeirra, að þau fái niðurstöðu.

Því miður hefur það frumvarp ekki fengið framgang í þinginu. Ég vonast til að (Forseti hringir.) hv. formaður nefndarinnar muni taka undir þau sjónarmið mín að hrunmálin eigi að fá skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu (Forseti hringir.) þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar hafi ekki enn þá tekið undir slík sjónarmið.