139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum framhaldsnefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd sem kom saman í hádeginu í dag til að ræða dóm Hæstaréttar. Það er mjög brýnt að málið varðandi breytingar á lögunum fari í gegn vegna þess að segja má að námsmenn bíði eftir úrlausn mála sinna og miðað er við að það verði að lögum, helst í dag, þannig að um næstu mánaðamót sé hægt að greiða úr vanda þeirra.

Dóm Hæstaréttar þurfti hins vegar að ræða í nefndinni vegna þess að þessi mál komu öll mjög nálægt því sem hann dæmdi í, þ.e. um að lánsveð og ábyrgðir haldi og að ekki megi víkja frá þeim. Ég held að menn þurfi að taka það mjög alvarlega. Við höfum fengið nokkrum sinnum dóma frá Hæstarétti sem segja að lög séu andstæð stjórnarskrá. Við, hv. þingmenn sem höfum svarið stjórnarskránni eið, verðum að taka það mjög alvarlega þegar slík mistök verða því að auðvitað er um mistök að ræða. Ég nefni t.d. kvótamálið og öryrkjadóminn sem leiddi á sínum tíma til þess að menn gripu mjög hratt til ráðstafana til að laga og breyta lagasetningunni. Síðan kemur dómur um ábyrgðarmenn núna. Ég tel að Alþingi og nefndir þingsins þurfi að taka það mjög alvarlega af því að við erum löggjafinn, ekki framkvæmdarvaldið. Hv. nefndir þingsins sem málið varðar verða að taka þessi mál mjög föstum tökum. Ég legg til að þær kanni það í janúar, fái gesti og aðra slíka til að upplýsa sig og skoða hvernig hægt er að breyta lögunum þannig að þau standist stjórnarskrá. Ég tel mjög brýnt að það sé gert.

Hins vegar tel ég dálítið slæmt að Hæstiréttur sé ekki fullskipaður þegar hann tekur svona afdrifaríkar ákvarðanir. Ég hefði lagt til að hann væri fullskipaður þegar hann fer í hlutverk stjórnlagadómstóls, þ.e. dæmir um hvort lagasetning stenst stjórnarskrá, en það stendur ekkert um Hæstarétt í núverandi stjórnarskrá og það eru engin lög um að hann skuli vera fullskipaður í slíkum dæmum. Það er eitthvað sem við þyrftum að skoða.

Fallið hafa fleiri dómar eins og t.d. gengistryggingardómurinn sem var afskaplega veigamikill og hafði gífurlega mikil áhrif úti um allt þjóðfélagið. Í slíku tilfelli hefði mér þótt betra að Hæstiréttur væri fullskipaður.

Svo hafa fallið dómar erlendis. Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm um að iðnaðarmálagjaldið bryti mannréttindi. Það er fjöldinn allur af öðrum lögum sem eru algjörlega sambærileg, jafnvel verri. Ég er dálítið undrandi á því að menn taka þau mannréttindi öðrum tökum en önnur mannréttindi, að menn skuli ekki hafa tekið sér tak núna og farið í vinnu á hv. Alþingi, því að Alþingi er jú löggjafarvaldið, við að breyta lögum þannig að við skemmum ekki og meiðum ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Þar er um fjöldann allan af málum að ræða sem ég hef reyndar flutt um nokkuð mörg frumvörp nokkuð mörgum sinnum, eins og um búnaðargjald o.s.frv.

Ég fellst á þá niðurstöðu að nefndarálitið skori á aðila að koma saman. Ég tel mjög brýnt, og það er í allra þágu, að samkomulag sé gert milli aðila. Það er í einskis þágu að margir lendi á vergangi út af þessu. Ég treysti á að þeir aðilar sem að þessum málum koma, bankar og fjármálastofnanir og umboðsmaður skuldara og fleiri, vinni gott samkomulag sem nái til sem flestra aðila og leysi þann vanda sem kominn er upp. Hv. Alþingi þarf að samþykkja lög eða breytingar á lögum til að þau stangist ekki á við stjórnarskrá.