139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. [Kliður í þingsal.] Ég mæli fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þessum lagaákvæðum þarf að breyta í tengslum við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.

Fyrri hluti frumvarpsins lýtur að breytingum á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Við 6. gr. laganna bætist, samanber 1. gr. þessa frumvarps, ákvæði sem ganga frá því með hvaða hætti stéttarfélagsaðild

(Forseti (RR): Hljóð í salnum.)

starfsmanna verði háttað við þessa yfirfærslu. Hér er farin mjög svipuð leið, að segja má, og áður hefur gerst þegar málefni og verkefni hafa flust milli stjórnsýslustiga, eins og 1990 þegar færslan var í hina áttina og heilsugæsla fór frá sveitarfélögum til ríkisins. Þetta er gert með því að sett er svokallað sólarlagsákvæði í lögin sem gerir þeim starfsmönnum sem eru í tilteknu stéttarfélagi og hafa verið innan þess fram að breytingunni kleift að vera þar áfram ef þeir svo kjósa, samanber 1. gr. sem um það fjallar.

Varðandi framhaldið gildir hins vegar sú stéttarfélagsaðild sem almennt á við um bæjarstarfsmenn þegar þeir ráða sig til starfa í málaflokkum sem sveitarfélögin fara með, þá eru það bæjarstarfsmannafélögin eða önnur þau verkalýðsfélög sem fara með samningsumboð fyrir viðkomandi aðila.

Því er ekki að leyna að það var nokkuð snúið að ná þessu saman, frú forseti. Ég vona að með þeim frágangi sem hér er um búinn sé sæmileg sátt um á hvaða forsendu þetta er gert og í raun og veru sé hann sá eini sem ég tel að yfirleitt sé hægt að ná fram í sæmilegu andrúmslofti, að menn séu sem sagt ekki fluttir úr stéttarfélagi gegn vilja sínum þar sem þeir hafa skipað sér í sveit áður. En varðandi framhaldið gegnir að sjálfsögðu öðru máli. Lögð var á það rík áhersla af hálfu sveitarfélaganna að nýráðningar í málaflokkinn ættu sér stað í gegnum þau stéttarfélög sem sveitarfélögin semja við. Þetta þýðir í raun og veru að sá hluti félagsmanna SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, sinnir áfram þessum störfum og hefur samningsumboð fyrir hönd þeirra starfsmanna sem kjósa að vera þar áfram félagsmenn. Stéttarfélag í almannaþjónustu fer með samningsumboð samkvæmt reglum sem þar um gilda. Nokkur munur er á launakerfum þeirra sem í hlut eiga, sérstaklega munar því að starfsmenn sveitarfélaganna hafa almennt samið á grundvelli starfsmats. SFR er meðvitað um þetta og lýsir yfir vilja til samráðs um að samræma launakerfi sitt fyrir hönd sinna félagsmanna við launakerfi sveitarfélaganna þannig að það geti gengið árekstralaust fyrir sig. Þetta er mikilvægur hluti af þeim viðamiklu heildarbreytingum sem þeirri aðgerð tengjast að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna sem nú hefur náðst heildarsamkomulag um og á að verða um áramótin.

Engu að síður er ástæða til að huga að þessu í almennu samhengi, ég tala nú ekki um ef meiningin er að fylgja því eftir með því að færa næst málefni aldraðra yfir til sveitarfélaga sem áform hafa jafnvel staðið til að yrði á næsta ári. Ég held að það væri mjög æskilegt, samanber það sem segir í 2. gr. frumvarpsins, að taka þetta fyrirkomulag allt til endurskoðunar, þá er verið að vísa í það endurskoðunarákvæði sem er í samningunum um yfirfærsluna og á að virkja á árinu 2013 til að meta aðgerðina í heild og kostnaðarþætti þar með talið en líka er hægt að meta starfsmannaþættina. En til frambúðar litið þyrfti að skýra löggjöf að þessu leyti og hafa það betur valdað og fyrir fram ákveðið hvernig með málefni starfsmanna er farið í tilfærslum af þessu tagi.

Varðandi seinni hluta frumvarpsins, sem snýr að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, eru þær breytingar mjög hliðstæðar því sem áður hefur verið gert, þ.e. að menn geti haldið áfram aðild sinni að lífeyrissjóði þar sem þeir eru enda starfi þeir áfram við málaflokkinn og með fullri ávinnslu og órofinni ávinnslu réttinda. Gera þarf nauðsynlegar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að hægt sé að ganga frá því máli. Sömuleiðis liggur fyrir samkomulag og er nokkuð ljóst hvernig tekið verður á málum og hver ábyrgð hvers um sig verður í þeim efnum.

Ég vil segja um aðgerðina í heild sinni og almennt að hún er að mínu mati mjög ánægjuleg ef loksins tekst eftir ítrekaðar tilraunir sem eiga sér langa sögu að láta verða af þessari færslu. Það er ekki samboðið þessum mikilvæga og viðkvæma málaflokki að menn hringli með málið og skjóti því á frest ef það er niðurstaða manna, sem ég held að sé nú sem betur fer víðtæk samstaða um, að málaflokknum sé vel komið hjá sveitarfélögunum og þetta sé liður í þeirri samþættingu þjónustunnar sem að er stefnt. Ég er sammála því að færslan feli í sér mikil sóknarfæri til að skipuleggja og bæta þjónustuna af hagkvæmni til að nærþjónustan sé sem samþættust og á hendi sveitarfélaganna. Það fylgir því líka sá kostur að það dregur nokkuð saman með stjórnsýslustigum þegar málaflokkur sem veltir á annan tug milljarða króna færist frá ríki til sveitarfélaga, þá jafnast aðeins á klyfjunum og hlutur sveitarfélaganna í samneyslunni vex. Ég tel að það markmið sem við eigum að stefna að á komandi árum sé að leiðrétta þessi hlutföll þannig að til lengri tíma litið verði æskilegt að stefna að sem jafnastri skiptingu þannig að hvor aðilinn um sig sjái kannski sem næst um helming samneyslunnar eða hins opinbera búskapar. Þá er þetta að sjálfsögðu ánægjulegt skref í þeim efnum.

Því er ekki að leyna að ríkið leggur talsvert af mörkum til að af þessari færslu geti orðið í formi ýmiss konar einskiptisgreiðslna á næstu þremur árum sem tengjast breytingarkostnaði og ýmsu uppgjöri sem þarf að eiga sér stað við breytingu af þessu tagi. Því er haldið til hliðar við sjálfan fjárhagsgrundvöll yfirfærslunnar sem fyrst og fremst er fólginn í því að 1,2% af tekjuskattsstofni færast úr tekjuskatti yfir í útsvar og síðan verður bætt við því sem á vantar til að útsvarstekjustofninn þannig reiknaður gefi nægjanlega af sér svo að fjárhagsgrundvöllur yfirfærslunnar sé að fullu tryggður. Það verður þá gert með beinum greiðslum af fjárlögum eftir því sem til þarf. En vonandi hressist nú útsvarstekjustofninn þannig að jafnvel strax á árinu 2012 dugi þessi 1,2% til þess að skapa þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar rekstrarkostnaði í málaflokknum.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og væntanlega fremur til efnahags- og skattanefndar en félagsmálanefndar þó að ég áskilji mér rétt til að hugleiða það mál ef ég má. Satt best að segja mætti færa rök fyrir því að málið færi til hvorrar nefndar um sig.