139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra að ég tel mjög til bóta að þessi málaflokkur fari yfir til sveitarfélaganna og tek undir það líka sem hæstv. ráðherra benti á að þar væri þessi málaflokkur betur geymdur eða vistaður en hjá ríkinu. Ef ég man rétt eru 16 ár síðan menn byrjuðu að ræða það milli ríkis og sveitarfélaga að koma þessu á.

Eini ljóti bletturinn, ef ég mætti orða það þannig, sem snýr að því frumvarpi sem hæstv. ráðherra mælti hér fyrir er sá, og mér finnst það algjörlega óþolandi og ólíðandi, að færsla á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaganna skuli einna helst hafa strandað á því, löngu eftir að ríki og sveitarfélög höfðu náð samkomulagi um með hvaða hætti þetta yrði gert og hvaða greiðslur mundu fylgja, að eitthvert stéttarfélag stoppi þetta af. Í raun og veru snýst málið um það hvaða stéttarfélag fær aðildargjöld af félagsmönnunum sem vinna við þennan málaflokk. Í stuttu máli snýst málið um þetta.

Hæstv. ráðherra sagði að það hefði verið svona sæmileg sátt um það hvernig þessu máli væri lent. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann vildi fara aðeins frekar yfir það, hvort sveitarfélögin séu sátt við þetta. Og í öðru lagi: Nú stendur til, vonandi á næstu árum, að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Kemur til greina, af því þetta hlýtur að vera fordæmisgefandi, að gera það með sama hætti og hér er gert, þ.e. að menn fari að víla og díla um stéttarfélagsgjöld þegar málefnin eiga að sjálfsögðu ekki að snúast um það, heldur að tryggja eins og í þessu tilfelli betri þjónustu við fatlaðra?

Það er mjög bagalegt hvað málið kemur seint inn í þingið, en það eru fyrst og fremst þessar tvær spurningar til hæstv. ráðherra: Hver var afstaða sveitarfélaganna til þessa máls? Kemur til greina þegar fleiri verkefni verða flutt frá (Forseti hringir.) ríki til sveitarfélaga að sami háttur verði hafður á?