139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um það hvort hann telji koma til greina þegar fleiri málaflokkar verða færðir frá ríki til sveitarfélaga að sömu vinnubrögð verði viðhöfð.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta fjallaði kannski líka um það að ná sátt og samlyndi við starfsmennina og þá hlýtur maður að skilja svör hæstv. ráðherra þannig að þeir starfsmenn sem starfa í þessum geira vilji frekar vera starfsmenn ríkisins en sveitarfélaganna. Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um það hver voru helstu rök starfsmannanna fyrir því að vilja frekar vera starfsmenn ríkisins en starfsmenn sveitarfélaga? Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um hvaða stéttarfélag fær aðildargjöldin.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er mjög bagalegt að málið komi svona seint til meðferðar þingsins þannig að þingið geti vandað sig eins og kostur er. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er mikil samstaða milli ríkis og sveitarfélaga um meginniðurstöður samningsins. Það er fagnaðarefni. Það er líka mjög ánægjulegt að sjá þá breytingu sem þarna er gerð varðandi endurskoðunarákvæðið og menn þurfa þá ekki að að rífast eins mikið um krónur og aura. Ég tel það mjög mikilvægt og til mikilla bóta hvernig staðið var að því máli. Hins vegar finnst mér þetta snúast um stéttarfélagsgjöldin.

Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir því, ef hæstv. ráðherra mundi vilja útskýra það fyrir mér og fyrir þinginu auðvitað, að þeir einstaklingar sem vinna í þessum málaflokki töldu sig betur komna sem ríkisstarfsmenn eða vildu frekar vera í stéttarfélagi þeirra en í þeim stéttarfélögum sem bæjarstarfsmenn almennt eru í? Hver er orsökin fyrir því?

Virðulegi forseti. Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að greiddar verði 15 milljónir á ári á árunum 2011–2013 (Forseti hringir.) eða samtals 45 milljónir. Er það lokagreiðsla vegna þessara lífeyrisréttinda sem kemur þar fram?