139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ég hafi í raun og veru þegar svarað þessu eða brugðist við því í fyrra andsvari. Ég held að menn verði bara að hafa í huga og muna að starfsmennirnir, þjálfað starfsfólk og hæft sem þarna er að störfum í dag er náttúrlega lykilatriði í að veita þessa þjónustu. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við eigum alltaf að taka útgangspunkt í þjónustunni og þeirra sem hennar njóta og hagsmuna fatlaðra í þessu tilviki í því samhengi. En starfsfólk málaflokksins er auðvitað lykilþáttur líka og mannauðurinn sem þar er til staðar og það skiptir öllu að þetta gangi vel fyrir sig og það sé sem best andrúmsloft í þeim samskiptum líka. Eða hvernig ætla menn að starfrækja málaflokkinn ef þar væri allt upp í loft þegar yfirfærslan er að fara að eiga sér stað?

Ég held að allir muni sjá þegar þeir hugleiða málið að það er mjög mikilvægt að reyna að finna þarna einhverja þá lendingu í þessu sem skástur friður er um. Það er það sem hér hefur verið reynt. Ég lít á það einmitt sem hluta af því að tryggja að yfirfærslan gangi vel fyrir sig án röskunar og með sem minnstri truflun fyrir málaflokkinn og þá viðkvæmu en bráðnauðsynlegu þjónustu sem þarna er verið að veita. Það verður ekki gert öðruvísi en með starfsfólki sem er tilbúið til að vinna við málaflokkinn. Þess vegna held ég að það sé ákaflega mikilvægur þáttur þessa máls að þarna takist sæmilega til.