139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hægt er að færa rök fyrir því að fatlaðir og aðstandendur þeirra líði fyrir þessa deilu þar sem stéttarfélögin voru að halda utan um sálirnar sínar, þá sem áttu að greiða til þeirra félagsgjöld. Þeir líða fyrir það að ekki er enn vitað eða bara mjög nýlega vitað hvert þeir eiga að snúa sér eftir áramót. Ekki er búið að samþykkja lögin sem átti að vera búið að samþykkja fyrir löngu. Það er ekki búið að móta stefnu. Fatlaðir líða fyrir það að stéttarfélögin eru að berjast um einhverjar 70 milljónir í félagsgjöld sem starfsmenn verða að borga til þeirra hvort sem þeir vilja eða ekki. Mér finnst þetta óeðlilegt, frú forseti.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í seinni spurningu mína sem fjallaði um það hvort þetta sé ekki brot á mannréttindum að fólki sé gert að greiða í stéttarfélag, meira að segja upphæð sem ekki er takmörkuð með lögum. Fólki er gert með lögum að borga í stéttarfélag einhverja upphæð af launum sínum sem stéttarfélagið ákveður einhliða eða meiri hluti þess án þess að það vilji vera í því stéttarfélagi. Það er ekki hægt að skylda það til þess samkvæmt stjórnarskrá. Því er gert að borga í stéttarfélag. Þarf ekki að taka á því máli hratt og vendilega þannig að við lendum ekki í því sama, að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmi þessi lög, 2. mgr. 7. gr., í andstöðu við stjórnarskrána en í henni stendur að opinber starfsmaður skuli greiða í stéttarfélag, opinbert stéttarfélag væntanlega, hvort sem hann vill eða ekki. Hann getur ekki stofnað nýtt stéttarfélag ef honum líka ekki kjör sín. Hann getur ekki barist fyrir réttindum sínum eins og var í árdaga stéttarfélagabaráttunnar. Hann verður að borga í eitthvert opinbert stéttarfélag. Þetta er bara nákvæmlega eins og í Sovét.