139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta sem samþykkt voru af Alþingi 9. september sl., samanber lög nr. 121/2010. Með þeim lögum er kveðið á um sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti og sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti frá og með 1. janúar nk.

Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er nú unnið að því að fækka ráðuneytum úr 12 í 9 og sameina stofnanir og hagræða með því um leið og skilvirkni er aukin innan kerfisins. Sú endurskoðun sem þegar hefur átt sér stað og enn er unnið að í Stjórnarráðinu er bæði nauðsynleg og löngu tímabær. Ég tel afar mikilvægt, ekki síst á þeim tímum sem við göngum nú í gegnum í kjölfar hrunsins, að auka samstarf þannig að ríkið og einstök ráðuneyti og stofnanir vinni saman sem ein heild. Ég tel nauðsynlegt að auka sveigjanleika innan kerfisins þannig að sérfræðingar flytjist á milli þar sem þeirra er mest þörf eftir verkefnum og stöðu mála hverju sinni. Þannig nýtum við þann mikla mannauð sem býr innan ráðuneyta og stofnana enn betur en gert hefur verið. Þar tel ég, eins og ég hef áður sagt á Alþingi, að við eigum m.a. að horfa til Danmerkur þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum innan stjórnsýslunnar við ríkisstjórnarskipti og jafnvel oftar eftir áherslum og breytingum í samfélaginu.

Segja má að tveir þættir af þessum umfangsmiklu stjórnkerfisumbótum hafi nú náð fram að ganga. Í fyrsta lagi með samþykkt laga nr. 98/2009 þar sem m.a. voru flutt verkefni milli ráðuneyta og til varð nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Í þeim lögum var einnig mælt fyrir um breytingar á verkaskiptingu nokkurra annarra ráðuneyta og nöfnum þeirra breytt til að endurspegla betur hlutverk þeirra. Þá hefur forsætisráðuneytið fengið aukið forustu- og verkstjórnarhlutverk. Í öðru lagi með samþykkt laga nr. 121/2010 þar sem samþykkt var að fækka ráðuneytum úr 12 í 10.

Þá er unnið að endurskoðun stofnanakerfisins og að bæta gæði opinberrar þjónustu. Miðar þeirri vinnu vel. Markmiðið með þessum umbótum er að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Það frumvarp sem ég mæli fyrir er bein afleiðing framangreindrar sameiningar ráðuneyta og kveður á um breytingar á fagheitum viðkomandi ráðherra og ráðuneyta til samræmis við hin nýju heiti. Með frumvarpinu er einnig lagt til að fækkað verði tilvísunum í fagheiti ráðherra og ráðuneyta og að jafnaði komi heiti þeirra einungis fyrir einu sinni í hverjum lögum. Slíkt er til nokkurrar einföldunar en þess er jafnframt gætt að skýrleiki á ábyrgðarsviði viðkomandi ráðherra haldist. Í frumvarpinu felast því ekki efnislegar breytingar á málefnasviðum viðkomandi ráðherra og verkefni eru ekki færð til milli ráðuneyta með frumvarpinu. Í einstaka tilvikum hefur verið talin þörf á að breyta orðalagi og er slíkt þá skýrt sérstaklega í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. Á þetta t.d. við þegar um tilnefningar og samráðsákvæði er að ræða.

Frumvarpið skiptist í tvo þætti og skiptist hvor þáttur í tvo hluta sem síðan greinast í kafla. Í fyrsta þætti frumvarpsins er að finna breytingar er varða nýtt velferðarráðuneyti. Fyrsti hluti þess þáttar hefur að geyma löggjöf sem heyrir til málefnasviðs félags- og tryggingamálaráðherra en í öðrum hluta þáttarins er fjallað um löggjöf á málefnasviði heilbrigðisráðherra.

Í öðrum þætti frumvarpsins er að finna breytingar er varða nýtt innanríkisráðuneyti. Fyrsti hluti þess þáttar hefur að geyma löggjöf sem tilheyrir málefnasviði dómsmála- og mannréttindaráðherra en í öðrum hluta þess er fjallað um löggjöf á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Frumvarpið er svo kaflaskipt eftir þeim lögum sem breyta á og skýrir það sig nokkuð sjálft.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir felur í sér tæknilegar breytingar sem eiga stoð í samþykkt Alþingis á lögum um sameiningar hlutaðeigandi ráðuneyta í september sl. Að baki frumvarpinu liggja því mikilvægar sameiningar og löngu tímabærar, það þekkja þeir þingmenn og ráðherrar sem hafa einbeitt sér að heilbrigðis- og félagsmálum gegnum árin.

Virðulegi forseti. Ég legg ríka áherslu á að um næstu áramót verði til ný ráðuneyti og verður nýtt skipulag í ráðuneytunum tveim mótað í samræmi við það. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.