139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta afar eðlilegar spurningar sem hér eru lagðar fyrir í þessari umræðu þó að mér þyki miður að sú spurning sem kom frá hv. þingmanni sé ekki sprottin af áhuga hans á því að hér verði til eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég tel afar brýnt að það verði og að því hefur verið unnið. Tímaröðin hefur vissulega nokkuð breyst frá því sem upphaflega var áformað. Þá átti t.d. innanríkisráðuneytið ekki að lögfestast fyrr en í lok kjörtímabilsins og taka gildi á næsta kjörtímabili en því hefur verið breytt og nú er í gangi að það komi til framkvæmda um áramótin.

Að því er fyrirspurn hv. þingmanns varðar kom fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar sem fjallaði um breytingar á ráðuneytunum að meiri hlutinn legði áherslu á að „áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, þó ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú, þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu“. Síðan er það sett fram sem skoðun meiri hlutans að „í aðdraganda sameiningar ráðuneyta, í þessu tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, geti verið heppilegt verklag að sami ráðherra gegni þeim ráðuneytum sem til stendur að sameina mánuðina áður en sameiningin á sér stað og stjórni því verki, t.d. frá áramótum“.

Það hefur ekki orðið nein breyting á því sem þarna stendur. Við teljum að þarna hafi meiri hluti allsherjarnefndar sett fram ákveðið verklag sem við teljum eðlilegt að framfylgja, að áður en sameiningin eigi sér stað taki sá ráðherra við því ráðuneyti og undirbúi breytingaferlið áður en það tekur gildi. Það hefur lánast vel í þessum ráðuneytum sem við höfum þegar sameinað og ég tel að það verklag eigi að taka upp varðandi (Forseti hringir.) atvinnuvegaráðuneytið.