139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að hrinda þessu í framkvæmd sem allra fyrst, eins og tök eru á. Vitaskuld hefur verið unnið í þessum málum og skoðað, sem ekki liggur fyrir enn, nákvæmlega hvernig flutningur á stofnunum gæti verið í þessum tilvikum milli auðlinda- og umhverfisráðuneytis og þá nýs atvinnuvegaráðuneytis. Það hefur ekki verið tekin afstaða til þess en menn eru þó að vinna í því máli og skoða hvernig það verði best gert.

Ég á ekki sérstaklega von á því að lög verði sett um þessi mál núna eða að frumvarp komi fram um það núna fyrir jólin. Mér finnst líklegra tímaplanið sem við ræddum um í tengslum við hin tvö ráðuneytin sem lagt var fyrir í allsherjarnefnd, að þar taki sá ráðherra við þessum ráðuneytum, þá erum við að tala um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytin, í tíma áður en lögfestingin gengur í gildi. Mér finnst því ekkert ólíklegt, ef ég á að geta mér til um hvernig tímasetningin væri í þessu, að við mundum stefna að því að nýtt atvinnuvegaráðuneyti yrði tilbúið og kæmist til framkvæmda í marsmánuði og þá líka breytingar á umhverfisráðuneytinu þannig að það fái til sín auðlindirnar og verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti.