139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta. Þessar breytingar hafa lengi legið fyrir og þetta er tæknileg útfærsla á breytingu á heitum. Þess vegna er mjög þarft að velta upp þeirri spurningu hvers vegna þetta mál er ekki löngu komið fram í þinginu.

Nú eru sjö þingdagar eftir að því er mér telst til auk þess dags sem ætlaður er til umræðu um fjárlagafrumvarpið og ljóst að þetta mál mun ekki fá mikla umfjöllun í þinginu. Það er að mínu viti fullkomlega óeðlilegt að henda inn málum á síðustu stundu, það lítur út eins og menn séu ekki undirbúnir og hafi ekki áttað sig á því að þetta þyrfti að komast að og í gegn fyrir áramót. Eftir umfjöllun okkar á síðasta þingi þegar við fórum yfir rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem stjórnsýsla ríkisins, ríkisstjórnar og stjórnvalda, var gagnrýnd harðlega hélt ég einhvern veginn að menn ætluðu að læra eitthvað af reynslunni, sérstaklega í ljósi þess að við samþykktum 63:0 þingsályktunartillögu um að við ætluðum að taka okkur á og bæta vinnubrögð. Þess vegna verð ég fyrir vonbrigðum, og nú verð ég fyrir vonbrigðum á hverjum einasta degi í þinginu með þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin sýnir.

Ég las í blöðunum um daginn að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu farið í einhvers konar stjórnsýsluskóla. Þeir settust á skólabekk og þar var væntanlega farið yfir góða stjórnsýsluhætti. Það er gott að menn séu viljugir til að læra, maður á alltaf að vera að læra eitthvað nýtt af því að menntun er alltaf góð og þekking kemur manni vel. En maður þarf þá að sýna það líka í verki, ekki bara tala fallega um að maður ætli að breyta hér öllu og laga til en gera það síðan ekki þegar á reynir.

Þetta mál er í sjálfu sér ekkert sérstaklega flókið og því mætti halda fram af hálfu ráðherra, sem væntanlega er gert, að þetta þurfi ekki ítarlega meðferð í þinginu, en þetta er einfaldlega ekki eina málið sem svona háttar til um. Við erum nýkomin með inn í þingið frumvarp um tilfærslu á málaflokki fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga. Það hefur verið mælt fyrir því frumvarpi og því vísað til félagsmálanefndar sem hefur umfjöllun um það á nefndadögum í þessari viku. Þar sem staðið hefur til í nokkur ár að færa þennan málaflokk yfir er mjög skrýtið að það þurfi að koma svona seint fram í þinginu. Félags- og tryggingamálanefnd hefur nokkra daga til að fara yfir það, fá til sín gesti og taka ákvörðun um hvort þetta frumvarp frá félagsmálaráðuneytinu sé nægilega vandað til að hægt sé að samþykkja það í þinginu og gera að lögum fyrir áramót. Ef það verður ekki er það verkefni væntanlega í uppnámi vegna þess að búið er að gera ráð fyrir því að þessi tilflutningur verði þrátt fyrir að lögin hafi ekki verið samþykkt. Þá tekur í rauninni ekkert við um áramótin og því hefur verið haldið fram að ef þingið muni ekki drífa sig í að samþykkja þetta fyrir áramót setji það það verkefni 10 ár aftur í tímann. Í því máli stjórnar framkvæmdarvaldið þinginu. Þingið hefur ekkert val, að því er mér skilst, í því máli. Við verðum að fara að taka okkur tak í þinginu, við getum ekki boðið Alþingi Íslendinga, sem er löggjafarsamkundan okkar, upp á svona vinnubrögð.

Þó að þessi ræða sé nú orðin talsvert neikvæð mælist ég til þess að ráðherrarnir taki þessu með jákvæðni og einsetji sér að við lendum ekki í því sama næsta vor og við lentum í í vor þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar dældu öllum frumvörpunum sínum fram á síðasta degi sem heimilt var að leggja fram þingmál. Það er kannski of seint í rassinn gripið að bæta vinnubrögðin núna fyrir áramótin. Vinnubrögðin hafa ekki verið til fyrirmyndar og það er eitt af þeim atriðum sem gagnrýnd voru harðlega í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vona að við sjáum það á vorþinginu að menn hafi lært eitthvað, menn hafi viljað læra eitthvað og menn vilji í raun og veru breyta vinnubrögðum, menn segi það ekki bara á hátíðarstundum heldur sýni það í verki.

Síðan eru nokkur atriði um þessar breytingar á ráðuneytunum sem gaman væri að fá að vita hjá hæstv. forsætisráðherra. Hvenær stendur t.d. til að skipta um ráðherra og fækka þeim? Er komin einhver tímasetning á það? Það var kannski ekki alveg skýrt í andsvari hæstv. ráðherra áðan. Það er mjög mikilvægt að við fáum að vita þetta þannig að við áttum okkur á því hvernig þessi tilfærsla öll á sér stað. Eins væri gott að fá nánari útskýringar á atvinnuvegaráðuneytinu, með hvaða hætti menn hugsa sér þær breytingar.

Jafnframt langar mig til að benda hv. þingmönnum á þá umsögn fjármálaráðuneytisins með þessu frumvarpi að ekki verði séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Ég sé í frumvarpinu miklar kostnaðarbreytingar fyrir ríkissjóð, t.d. af þeirri ástæðu að breyta þarf nöfnum ráðuneytanna hvar sem þau koma fyrir, á pappír og öðrum stöðum. Þá er væntanlega sú skýring, hæstv. forsætisráðherra getur annars leiðrétt mig, að gert hafi verið ráð fyrir þeim kostnaðarbreytingum þegar við ræddum um breytingar á ráðuneytum fyrr í þinginu.

Frú forseti. Þrátt fyrir að þetta mál sé seint komið fram og að þingið hafi í rauninni ekki um margt annað að velja en að afgreiða það fyrir áramót, miðað við hvernig það er lagt upp, tel ég mikilvægt að við tökum okkur samt tíma til að lesa það yfir vegna þess að nóg höfum við gert af flýtimistökum í þinginu á undanförnum missirum og mánuðum. Síðan ítreka ég áskorun mína til ráðherra ríkisstjórnarinnar um að fara að vinna eftir því sem við öll höfum samþykkt hér, að bæta stjórnsýsluna, og byrja á því sem stendur okkur næst, okkur sjálfum, þannig að framkvæmdarvaldið stilli ekki sífellt Alþingi upp að vegg eins og það gerir hér í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)