139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara fyrirspurnum hv. þingmanns eins og ég get. Þeir þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stigið hafa í ræðustól vegna þessa máls hafa haft miklar áhyggjur af þessu stóra frumvarpi sem í sjálfu sér er ekki svo stórt, það eru fyrst og fremst tæknilegar breytingar þó að þær séu margar. Hv. þingmaður spyr hvort við höfum leitað af okkur allan grun í forsætisráðuneytinu um að ekkert hafi farið fram hjá okkur við þessa endurskoðun og breytingar. Ég vil segja að það hefur verið unnið eins vel og hægt hefur verið. Það er tæknilega flókið en það er gert í samráði við skjaladeild Alþingis og starfsmenn Alþingis gjörþekkja þetta mál, sem ætti að vera kostur við meðferð málsins á þingi, en þetta er gífurlega seinleg vinna og mikið nákvæmnisverk. Vonandi hefur ekkert farið fram hjá okkur við samningu þessa frumvarps, en ég tel mikilvægt að það var gert í samráði við Alþingi.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson orðaði það svo að það hefðu verið einhver mikil tíðindi í ræðu minni áðan. Ég get ekki verið sammála honum um það vegna þess að það var allt saman rætt þegar við fórum yfir breytingar á velferðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu. Þá lá það fyrir að næst á verkefnaskrá nefndarinnar að því er varðar fækkun ráðuneyta og fækkun ráðherra, sem við stefnum að að fækki í níu, eins og var rætt þá, að það mundi gerast í næsta áfanga, sennilega um áramótin, minnir mig að hafi verið orðað. Síðan kom sú hugmynd og tillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar sem við höfum nefnt, sem ég tel alveg sjálfsagt að skoða.

Varðandi hvort breytingar verða á ríkisstjórninni á næstu dögum hafa engar ákvarðanir verið teknar um það og er ekkert meira um það að segja. Ég tel að það sé til fyrirmyndar að vinna málið með þeim hætti að sá ráðherra sem á til frambúðar að taka við þessu ráðuneyti á (Forseti hringir.) kjörtímabilinu vinni þetta verk. Ég tel ekki ósennilegt (Forseti hringir.) að sé hægt að stefna að því að það taki gildi í mars eða apríl.