139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja út af andsvari hæstv. ráðherra eða svörum að ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi vatns. Hæstv. ráðherra segir að það sé rætt um það á tyllidögum, það er líka rætt um það á tyllidögum hversu mikilvæg heilbrigðisþjónustan er og þar fram eftir götunum. Menn verða að setja hlutina í samhengi við þá tíma sem við upplifum í dag. Ég er ekki að gera lítið úr því. Hins vegar var ábendingin sem ég kom með til hæstv. ráðherra sú að þetta eru 70 milljónir á næstu tveimur árum og við vitum að við þurfum að standa í blóðugum niðurskurði á næstu tveimur árum í mörgum velferðarmálum. Hæstv. ráðherra lét að því liggja eða sagði að þetta mundi taka gildi 2024, ef ég tók rétt eftir. Væri ekki hægt að draga aðeins úr þessu, þó að þetta væri ekki nema kannski svona 80% eða svo þannig að verkefnið gæti haldið áfram og við værum að undirbúa það? Töpum við eitthvað á því? Vegna þess að ég tel, virðulegi forseti, mikilvægara að styðja frekar heilbrigðisþjónustuna í landinu en að fara að hlaupa of mikið eftir Evróputilskipunum frá Evrópubandalaginu.