139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Athugasemd mín kom nú fyrst og fremst til vegna þess að málið var tilbúið af hálfu umhverfisráðuneytisins snemma árs og kom inn í þingið á vordögum og var ekki klárað þá. Maður hefði því ætlað að unnt hefði verið að leggja það fram þegar eða fljótlega eftir að þing kom saman 1. október. Það var eiginlega kjarninn í því sem ég vildi koma á framfæri.

Vandi okkar þingmanna er sá að ráðuneyti og ráðherrar koma á síðustu stundu með mál inn í þingið og leggja mikla áherslu á að þau verði kláruð, með tilvísun til ýmissa röksemda. Við munum væntanlega sjá dæmi þess hér á eftir út af öðrum málum sem koma allt of seint og óskað er afbrigða fyrir og ég veit ekki hvað og hvað. Vandinn er einfaldlega sá að þetta skapar hættu á því að mál fái (Forseti hringir.) ekki nægilega vandaða málsmeðferð í þinginu.