139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:27]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð um það frumvarp sem er til umræðu. Ég tel að í því felist framfaraskref, það sé gott frumvarp, skynsamleg skipan mála sem þar sé lögð til að mestu leyti, enda komið frá blessuðu Evrópusambandinu í grunninn. Það hefur verið lagt fram áður þó að það hlyti augljóslega ekki afgreiðslu þá og reyndar kallað eftir því nokkru fyrr. Ég minnist þess í hörðum átökum um vatnalögin á sínum tíma, sem þeir muna vel sem þá voru uppi, að töluvert var spurt um frumvarp um vatnatilskipun sem yrði flutt í framhaldi af vatnatilskipun Evrópusambandsins. Nú er það sumsé komið og þá er að taka til verka.

Það er rétt að við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í landi sem býr að mikilvægri og merkilegri vatnsauðlind. En við erum ekki þar með, eins og ætla mætti af orðum t.d. hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, til fyrirmyndar við meðferð þessarar auðlindar. Það er því miður ekki svo. Ég ætla ekki að rifja upp fréttir frá því í sumar um atburði á Austurlandi eða ræða lengi um þau áform sem eru uppi í okkar landshluta að leggja miklar rafmagnslínur yfir helstu vatnsverndarsvæði þéttbýlis Suðvesturlands, en ef við förum í söguna og litumst um í þessum efnum er rétt að tala varlega áður en menn berja sér á brjóst um vatnsvernd á Íslandi. Það er hins vegar svo að vatnsauðlindin hefur hingað til verið og verður vonandi áfram nánast óþrjótandi á landinu. Ef við stöndum okkur með því að taka m.a. upp skipan í átt við þá sem hér er til lögð getum við áfram notið þess og fært hana næstu kynslóð í arf.

Að þessu frumvarpi er þó það að finna að þegar það er skoðað virðist stjórnkerfið sem þar er gert ráð fyrir nokkuð þunglamalegt. Það er eðlilegt að til séu nefndir á hverju svæði sem fara með umsýslu og safna þekkingu um vatnamál á sínu svæði, en ég verð að segja að ég hef efasemdir um vatnaráðið sem hér er nefnt og til lagt í 5. gr. og skil ekki enn þá hvers vegna við þurfum á því að halda. Það er alveg nóg af ráðum og engin sérstök ástæða til að fjölga þeim ef ekki er á þeim brýn þörf. Ég hef ekki skoðað það með stækkunargleri en ég held að þetta sé ekki samkvæmt neins konar fyrirmælum eða leiðbeiningum frá Evrópusambandinu eða hinu Evrópska efnahagssvæði og grunar að um sé að ræða einhverja málamiðlun í kerfinu, eins og sagt er, sem oft eru gerðar með kostnaði fyrir skattborgara og aðallega veseni í stjórnsýslunni og held að það þurfi að skoða nánar í nefndinni.

Ég vil líka segja um það sem hér hefur verið nefnt að vonum um kostnaðinn. Það þarf auðvitað líka að athuga í nefndinni að það var gert ráð fyrir þessu framlagi í fjárlagafrumvarpinu sem er til umfjöllunar á öðrum stöðum í dagskrá þingsins. Ég tel fulla ástæðu fyrir nefndina að athuga kostnaðinn, sem ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að mig minnir og sennilega hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að er ekki heppilegt frumkvæði á okkar tímum, hvort hægt sé að komast hjá honum að einhverju leyti, draga úr honum eða jafnvel bíða með einhverja áfanga í frumvarpinu þangað til komin er sú skipan árið 2013 sem heitið er í greinargerð og gert ráð fyrir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þetta eru hugleiðingar sem ég vona að menn afsaki formanni umhverfisnefndar að láta hér í ljósi en þær draga þó ekki úr fögnuði þess hins sama að frumvarpið sé fram komið.

Má ég svo sem formaður umhverfisnefndar eða í einhverju því hlutverki sem mönnum finnst hæfa færa fram kvörtun yfir málfari á frumvarpinu og reyndar fleiri þingmálum sem koma úr ráðuneytum. Það er þó ekki hið ágæta nýyrði „hlot“ sem ég kvarta yfir, það er reyndar ekki alveg nýtt, u.þ.b. 20–25 ára gamalt, ég held að prófessor Halldór Halldórsson sé höfundur þess eins og margra fleiri nýyrða sem engum dettur nú í hug að hafi nokkurn tímann verið ný í málinu og telja að Snorri Sturluson og Egill Skallagrímsson hljóti að hafa haft líka, t.d. orðið fjölmiðill.

Lög verða að vera tvennt ef vel er að verki staðið, annars vegar verða þau að vera nákvæm og tiltaka eingöngu það sem þau eiga að tiltaka og ekkert umfram það, hins vegar þurfa þau að vera sæmilega skiljanleg almenningi, öllu venjulegu fólki, án þess að þurfi einhverja sérstaka aðstoð við að nema meginefni frumvarpsins. Við Íslendingar búum að því að við eigum nokkuð sem ekki allar aðrar þjóðir hafa, við eigum góða hefð í lagamáli okkar, hefð sem byggist á lagasafninu í Grágás og lögbók eins og Jónsbók sem enn er í gildi að ákveðnu leyti, og færir lögfræðingar hafa á öllum tímabilum Íslandssögunnar haft í heiðri og flutt fram, ekki síður þeir sem nú lifa, a.m.k. þeir sem elstir eru og margir yngri menn færir og málhagir. Við eigum íslensk orð um mjög mörg tæknileg fyrirbrigði í lögum og lögfræðingar og lögspekingar hafa verið duglegir að halda áfram á þeirri braut. Þeir hafa ekki síður brýnt það fyrir nemendum sínum, að vísu með misjöfnum árangri, að orða lagatexta og skýringartexta þannig að þeir séu öllum skiljanlegir, að við eigum lögin öll saman en ekki aðeins einhver sérmenntuð yfirstétt eða faghópur sem í þeim krafti belgir sig yfir aðra í samfélaginu.

Forseti. Það er mjög mikilvægt í nýjum rétti, sem við fáumst nú við, umhverfisrétti, og er í raun og veru tiltölulega nýtt fyrirbrigði ef við horfum á áratugina, að þessari hefð sé haldið. Það skiptir máli fyrir viðtökurnar sem lög og aðrir textar á þessu sviði fá í samfélaginu, að almenningur finni að hér er verið að vinna í hans þágu en ekki að einhverjir lögfræðingar og stjórnmálamenn hátt yfir aðra hafnir komi fljúgandi frá Brussel eða öðrum stöðum með tilskipanir til að steypa yfir almenning, fyrirtæki og landið allt í einhverjum annarlegum tilgangi, að þetta geisli ekki af þeim lagatexta, reglugerðartexta eða skýringartexta sem við er að fást. Það er því miður svo í þessu frumvarpi. Menn geta bara lesið fyrstu greinina. Menn geta lesið skilgreiningarnar í 3. gr., t.d. á forgangsefni, með leyfi forseta:

„Forgangsefni: Efni sem skapa umtalsverða hættu fyrir vatnsumhverfi eða út frá því og raðað er í forgangsröð, að því er varðar aðgerðir, á grundvelli þess hve mikla hættu þau skapa fyrir vatnsumhverfi eða út frá því.“

Sá sem skilur þetta fær 10 í einkunn. Það fær líka sá sem skilur lið 17 í sömu grein. Þar er vatnstökusvæði sem ætti kannski ekki að þurfa að skýra skýrt svo, með leyfi forseta:

„Landsvæði þar sem taka má nytjavatn með hagkvæmu móti og aðrennslissvæði vatnsbóla á því.“

19. liður í sömu grein skýrir vistfræðilegt ástand svo, með leyfi forseta:

„Ástand varðandi gerð og starfsemi vistkerfa sem tengjast yfirborðsvatnshloti.“

Ekki einfalt. Svona heldur frumvarpið því miður nokkuð áfram og hefur ekki verið tekið mikið til í því eða það lesið yfir í því skyni að bæta á því málfarið, sem er engin elítuaðgerð heldur beinist að því að hjálpa fólki að skilja þau lög sem sett eru á þinginu handa fólkinu í þeim krafti sem við þingmenn höfum.

2. mgr. 14. gr. er t.d. svona:

„Raða skal efnum í forgangsröð að því er varðar aðgerðir í því skyni að geta staðist tímaáætlun á grundvelli þess hve mikla hættu þau skapa fyrir vatn og umhverfi þess eða út frá því. Röðunin skal greind með aðferð byggðri á áhættumati.“

Þetta þarf að lesa fimm sinnum til að komast nálægt skilningi og í raun og veru þarf að lesa alla athugasemdina í frumvarpinu til þess að reyna að skilja þetta og spyrja þar að auki starfsmenn umhverfisráðuneytisins og helst fá textann á ensku eða frönsku upp úr Evrópusambandstilskipuninni.

Þetta gengur eiginlega ekki, forseti, til lengdar. Þetta varðar líka samskipti ráðuneytanna og þingnefndanna. Samviskusamir fulltrúar almennings í þingnefndunum geta auðvitað ekki hleypt svona vitleysu í gegnum nefndirnar. Eiga þeir þá sjálfir að verja tíma sínum í eins konar prófarkalestur eða málfarsleiðréttingar í nefndinni til að Alþingi verði ekki að athlægi? Eða eiga þeir að fara fram á fjárveitingu frá forseta Alþingis til þess að ráða málfarsráðunauta til að fara í gegnum svona hluti í staðinn fyrir að ráðuneytin sjálf sjái um að þetta sé í lagi?

Nú skal ég láta lokið þessum hluta ræðu minnar, en gæti þó haldið nokkuð áfram.

Að lokum. Enn fagna ég þrátt fyrir þennan dapurlega litla kafla. Ég held að við þurfum að athuga þetta frumvarp aftur rækilega í nefndinni með góðum huga. Það er ljóst að við erum allt of sein að taka það fyrir miðað við eðlilegan gang mála í Evrópusamstarfi okkar. Frumvarpið er nú komið inn í þingið til afgreiðslu, ekki til kynningar. Ég hef ekki trú á öðru en Eftirlitsstofnun EFTA taki tillit til þess þannig að okkur gefist sæmilegur tími til að fara í gegnum það og afgreiða það.