139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um frumvarpið um vatnatilskipun Evrópusambandsins. Ég ætla eiginlega að hefja mál mitt þar sem hv. þm. Mörður Árnason hætti, því að þó að hann hafi kannast vel við orðið vatnshlot verð ég að viðurkenna að það stóð svolítið í mér fyrir utan vatnsformfræðilega eiginleika, mikið breytt vatnshlot, og vistmegin og sitthvað fleira í skilgreiningunum. Þetta kallar náttúrlega á það að hér verður að fara yfir og semja þennan texta á íslensku.

Hæstv. ráðherra minntist á að þrátt fyrir að við séum vissulega með fullt af góðum lögum og reglum sem gera það að verkum að við verndum vatn, væri verið að taka hér upp betra skipulag og samræmdara vinnulag, og þá er rétt að það sé sagt að við erum auðvitað að taka hér upp skipulag Evrópusambandsins. Það er reyndar líka rétt að við erum líka að taka upp málfar Evrópusambandsins, þ.e. það málfar sem er á þeim tilskipunum og eru svo þýddar beint og detta síðan hér inn sem lagafrumvörp daginn út og daginn inn og verður að segjast eins og er að það er erfitt að skilja það.

Nú veit ég að það er ekki vilji hæstv. umhverfisráðherra endilega að taka hér upp allar reglur Evrópusambandsins sérstaklega til að flýta fyrir inngöngu í Evrópusambandið, hvorki skipulag né málfar vatnatilskipana. Ég held kannski að við gætum, ef við vildum og settum smákraft í það, hreinlega fengið undanþágu frá þessari vatnatilskipun.

Ég held að ég muni það rétt að fyrir tveimur, kannski þremur árum kom hingað virtur fræðimaður á þessu sviði frá Evrópusambandinu og það var útvarpsviðtal við hann, það hlýtur að hafa verið í Speglinum. Ég man því miður ekki nafnið á fræðimanninum. Það sem kom honum mest á óvart við að skoða vatn á Íslandi var hve vatnið er fjölbreytt á Íslandi. Hér er bæði sjór og innsjór, strandsjór, lækir, ár, vötn, stórfljót, jökulvötn, bergvatnsár og dragár. Þetta kemur okkur reyndar ekkert á óvart og við þurfum ekki að flokka vatn fyrir Evrópusambandið til þess, það er alveg ljóst. Þess vegna ættum við að geta sett okkur skynsamlegri reglur sem ekki hefðu jafnmikinn kostnað í för með sér til að ná sambærilegum árangri.

Þetta segi ég vegna þess að ástæðan fyrir Evróputilskipuninni er ævinlega sú að þar liggja lönd að hvert öðru og vatn rennur auðvitað í gegnum þau lönd og þar sem hægt er að setja fráveitu út á einum stað getur orðið mengun á öðrum hvort í sínu landinu. Við þekkjum svo sannarlega alvarleg dæmi um slíkt, nú síðast frá Ungverjalandi í haust. Þetta er einfaldlega ekki tilfellið hér og þess vegna ættum við ekki að þurfa að taka upp skipulag Evrópusambandsins. Við ættum að geta fengið undanþágu frá því og sett hér upp skynsamlegri leið, farið ódýrari leið.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar um stjórnsýslulegt fyrirkomulag í frumvarpinu varðandi vatnaráð og vatnasvæði. Við höfum tvö stjórnsýslustig í landinu, þ.e. sveitarfélagastigið og ríkisstigið og þar höfum við verið að skipta verkum á milli. Við höfum síðan ríkisstofnanir eins og Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og svo undirstofnanir hjá sveitarfélögunum. Ég hefði haldið að það væri miklu eðlilegra að við nýttum það kerfi sem við höfum í staðinn fyrir setja upp sérkerfi. Ég þreytist ekki á því að koma hér upp og spyrja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar um 20/20 áætlunina, hvernig þetta vatnaráð og þetta vatnasvæði samræmist þessari samræmdu sóknaráætlun um uppbyggingu einstakra svæða.

Ég held að ég fari rétt með það að svæði heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga á landinu séu tíu. Ég held ég fari líka rétt með það að svæði Matvælastofnunar, mörg sambærileg og lenda oft á gráu svæði, séu sex. Mér finnst, satt best að segja, óþarfi að búa til nýja svæðaskiptingu þegar stjórnskipulag er til fyrir annarri. Ég held að nefndin verði að skoða þetta og tek undir orð hv. formanns nefndarinnar.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að við gætum vel gengið betur um auðlindina okkar, vatnsauðlindina. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að hún er til þess að gera í mjög góðu ásigkomulagi og er gríðarlega stór. Einhvers staðar las ég um það um daginn að vatnsauðlindin væri trúlega sú þriðja stærsta miðað við ríki í Evrópusambandinu og þá er það ekki miðað við höfðatölu heldur heild. Þetta er gríðarleg auðlind sem við höfum og okkur ber auðvitað skylda til þess að fara varlega með þá auðlind og ganga skynsamlegar um hana en við höfum kannski gert um langan tíma. Það er líka rétt að auðveldasta leiðin til að stýra því hvernig menn ganga um auðlindir er oft í gegnum fjármagn, þ.e. kostnað, og það getur vel komið til að það sé skynsamlegt, en ég hvet til þess að menn gangi þar varlega um gleðinnar dyr því að álögur hafa, eins og við þekkjum öll, verið að bætast verulega á fyrirtæki í landinu.

Ég ætla líka að útfæra það aðeins sem fór hér á milli okkar hæstv. ráðherra í andsvörum varðandi kostnaðinn og þá vinnu sem þarf að fara í. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að flokkun vatns hefur þegar verið á verkefnasviði heilbrigðiseftirlitssvæðanna og þar hefur staðið til að vera í þeirri flokkun. En það er einfaldlega svo að menn verða að forgangsraða verkefnum þegar erfiðleikar ganga yfir og þá er þetta verkefni auðvitað sett til hliðar í staðinn fyrir verkefni sem eru meira áríðandi á hverjum tíma, eins og að framfylgja matvælaeftirliti til að tryggja heilsufar bæði fólks og búfénaðar.

Mér finnst líka mjög mikilvægt þegar frumvörp koma frá ráðuneytunum — og hér er nú tveggja síðna fylgiskjal frá fjármálaráðuneytinu og hér er sannarlega verkefni, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, þar sem samráð ætti að vera lykilhugtak í samvinnu ríkis og sveitarfélaga — að þá sé búið að gera úttekt frá hendi sveitarfélaganna hvað þessi kostnaður þýddi, hvað þessi vinna mundi þýða og hversu langan tíma þetta tæki. Það mundi alla vega skýra og auðvelda vinnu okkar þingmanna verulega ef við sæjum það hér fyrir í staðinn fyrir að fá það síðan í bakið á næstu árum í alls kyns óskum um auknar fjárheimildir til sveitarfélaganna eða þeirra aðila sem eiga að sinna þessu.

Verkefni umhverfisnefndar verður umtalsvert og ég held að menn ættu ekki að flýta sér í því verki. Eins og ég kom inn á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra held ég að þetta sé ekki verkefni sem bráðliggi á miðað við mörg önnur. Ég held og vil koma því hér skýrt á framfæri að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem við gætum gert á eigin spýtur og þyrftum ekki að taka upp skipulag Evrópusambandsins og hefðum og gætum kannski enn sótt um undanþágu frá því að taka það upp og gera það með okkar skynsamlega hætti. Staðreyndin er sú, og ég þreytist ekki á að segja það en það virðist þurfa að segja það ansi oft, að Ísland liggur ekki að öðru landi heldur er hér eitt langt úti í Atlantshafi og þarf ekki að óttast að sú löggjöf sem við setjum í landinu hafi bein áhrif, í það minnsta hvað varðar vatn og það sem ekki getur borist með loftinu, á önnur lönd eða aðrar þjóðir.