139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Umræður um vatn, eignarrétt á vatni, stjórnsýslu vatnamála og allt sem vatni tengist hafa verið býsna heitar á Alþingi á síðustu árum. Ég hef tekið töluverðan þátt í þeim umræðum, enda varðar málaflokkurinn mikilvæga hagsmuni bæði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðina.

Nú er komið fram frumvarp til laga um stjórn vatnamála sem hæstv. utanríkisráðherra leggur fram og leiðir af tilskipun Evrópusambandsins, svokallaðri vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur komið til umfjöllunar í þessum þingsal en sömuleiðis í opinberri umræðu um skipan vatnamála hvort sem það varðar vernd, nýtingu eða stjórnsýslu því tengt.

Eins og fram kemur í frumvarpinu og ég nefndi áðan leiðir þetta frumvarp af tilskipun Evrópusambandsins sem Íslendingar áttu upphaflega samkvæmt EES-samningnum, ef ég man rétt, að innleiða í íslenskan rétt fyrir desembermánuð árið 2009. Það má því segja að við séum komin töluvert langt fram yfir þann frest sem þá var veittur. Nú er málið komið fram og verður hér tekið til efnislegrar umræðu.

Það er margt við þetta frumvarp að athuga eins og hér hefur komið fram og hv. þingmenn hafa bent á. Kostnaðurinn sem því fylgir er verulegur en í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði af sér 140 millj. kr. kostnað á árunum 2011 og 2012. Það er auðvitað verulegur kostnaður í því árferði sem nú er og meðan hér á sér stað niðurskurður í velferðarþjónustunni, í menntamálum og í rauninni á öllum sviðum. Og á sama tíma og verið er að skera niður eru skattar hækkaðir bæði á fólk og fyrirtæki og þá veltir maður því fyrir sér hvort nú sé tímapunkturinn til þess að ráðast í lagasetningu sem hefur í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð upp á annað hundrað milljónir króna og varðar stjórn vatnamála. Um það má deila, ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við Íslendingar höfum komist ágætlega af á þessu sviði fram til þessa án þess að þurfa að ráðast í þann kostnað sem frumvarpið mælir fyrir um. Það er í sjálfu sér viðbúið að kostnaðurinn við þetta frumvarp verði meiri, enn meiri, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur einnig fyrir aðra aðila sem frumvarpið varðar.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hefur það verið lagt fram áður en ekki verið afgreitt frá Alþingi. Ég varð mér úti um umsagnir sem þinginu hafa borist vegna þess frumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi þar sem gerðar eru nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem taka þarf tillit til, hygg ég, og varða m.a. kostnaðinn sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Meðal annars eru færð fyrir því rök í umsögn sem Landsvirkjun sendi þinginu þann 29. júlí sl. að 8. og 18. gr. frumvarpsins muni færa ýmsan kostnað og vinnu yfir á sveitarfélögin. Þannig að þegar allt er saman tekið varðandi kostnaðarþátt þessa frumvarps hljóta menn að líta til þess.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni, sem fór yfir ýmsa þætti þessa frumvarps í ræðu sinni áðan, að það er ýmislegt í orðalagi frumvarpsins sem stingur í augun. Svo virðist vera að á sviði umhverfisréttarins hafi ekki einungis sprottið upp nýr iðnaður í tengslum við umhverfismálin sem fer sífellt stækkandi heldur virðist hann hafa fætt af sér nýtt tungumál sem ég hygg að öllu venjulegu fólki sé býsna erfitt að henda reiður á hvað þýðir. Í þessu frumvarpi, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, er orðalag og hugtakaskilgreiningar sem ég hygg að fólki sem vill kynna sér meginefni frumvarpsins verði æðierfitt að átta sig á.

Ég óskaði eftir því undir framsöguræðu hæstv. ráðherra að komast í andsvar við ráðherrann vegna fyrirspurnar sem ég vildi varpa fram til hæstv. ráðherra um þetta mál en komst því miður ekki að, en það varðaði undirbúning að þessu frumvarpi. Þannig er að í ítarlegri og langri greinargerð með frumvarpinu er þess getið hverjir stóðu að samningu þess og sömuleiðis er gerð grein fyrir því að haft hafi verið samráð við hina og þessa aðila í þjóðfélaginu. Það sem mig langaði til að spyrja um var hvort frumvarpshöfundar hefðu haft hliðsjón af skýrslu vatnalaganefndar sem skilaði af sér niðurstöðum í september árið 2008. Fyrir þeirri nefnd fór þáverandi hv. þm. Lúðvík Bergvinsson en ásamt honum í nefndinni voru sá sem hér stendur, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Bryndís Hlöðversdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Tryggvi Agnarsson og Stefán Bogi Sveinsson. Sú nefnd var skipuð í kjölfar harðra deilna sem áttu sér stað á þinginu þegar þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, lagði fram frumvarp til nýrra vatnalaga. Umræðan um það frumvarp var hörð og deilur miklar eins og ég sagði áðan en þær deilur sneru fyrst og fremst að eignarráðum landeigenda á vatnsréttindum en ekki endilega vernd eða stjórnsýslu vatnamála.

Niðurstaðan varð sú eftir allar þessar deilur og mikil ræðuhöld hér um inntak gömlu vatnalaganna frá 1923 og ákvæði Grágásar og Jónsbókar um vatnalög að þessi vatnalaganefnd var skipuð og hún skilaði af sér skýrslu, sem ég er hér með í höndunum, með niðurstöðum upp á 215 blaðsíður. Það skal tekið fram að nefndin sem slík réðist ekki í tillögusmíð sem lýtur að innleiðingu þeirrar tilskipunar sem verið er að innleiða með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Engu að síður tók nefndin til umfjöllunar meginatriði varðandi stjórnsýsluþátt vatnalaga og vatnamála og lagði fram sérstakar tillögur í því sambandi.

Ég sé þess ekki stað í greinargerð með frumvarpinu að við meðferð þessa máls hafi verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í skýrslu vatnalaganefndarinnar, sem eins og áður sagði ég átti sæti í, við samningu frumvarpsins. Þar má sjá að vatnalaganefndin lagði í rauninni til þrenns konar breytingar á þeim þáttum sem varða stjórnsýsluþátt vatnamála. Nefndin segir í sinni skýrslu að í fyrsta lagi lúti hún að endurskoðun stjórnsýsluákvæða laganna til að tryggja betur að þau taki mið af ólíkum hagsmunum sem við vatnsauðlindina eru tengdir og þjóni þannig betur fjölþættu hlutverki sínu. Þar þurfi m.a. að huga að því að tryggt verði að við töku ákvarðana á grundvelli laganna verði tekið tillit til sjónarmiða sem varða almannahagsmuni, t.d. verndarsjónarmiða og sjónarmiða um skynsamlega nýtingu auðlindarinnar til framtíðar. Og það er þetta atriði sem ég vildi undirstrika í þessum tillögum vatnalaganefndar að þó svo að menn vilji auðvitað ganga vel um og vernda vatnsauðlindina er gríðarlega mikilvægt að nýtingarþátturinn gleymist ekki.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur kannski frekar verið á verndarlínunni þegar kemur að vatni og vatnsauðlindinni en nýtingarþættinum. Ég tel mjög mikilvægt þegar hv. umhverfisnefnd fer yfir þetta frumvarp að litið sé til mikilvægis þess að frumvarpið sem slíkt komi ekki í veg fyrir að Íslendingar geti nýtt þá auðlind sem vatnsauðlindin er. Það er sérstaklega mikilvægt á þessum tímum, þegar kreppir að mega lög auðvitað ekki standa gegn því að landið geti framleitt og landsmenn lifað af landsins gæðum.

Í öðru lagi lögðum við til í nefndinni að stjórnsýsla í tengslum við vatnamálin yrði gerð skýrari. Mér sýnist að með þessu frumvarpi sé stigið skref í þá átt að reyna að tryggja að svo sé og að skipulag stjórnsýslu vatnamála sé einfaldara en verið hefur, en fram til þessa hafa vatnamálin fallið undir fleiri en eitt og ég hygg fleiri en tvö ráðuneyti. Mér sýnist að með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar sé stigið skref í þá átt að reyna að einfalda stjórnsýsluna.

Hins vegar þegar frumvarpið er lesið hefur maður áhyggjur af því eins og ég sagði áðan að með því sé verið að leggja auknar skyldur, aukinn kostnað og aukna vinnu á aðila sem ekki er getið um í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, eins og til að mynda sveitarfélögin sem bent er á í gamalli umsögn Landsvirkjunar þar um að leiði af ákvæðum 18. gr. Þar við bætist, án þess að ég geti farið nákvæmlega ofan í einstök efnisatriði frumvarpsins, að sum ákvæði þess eru mjög matskennd og háð mati þeirra sem með stjórnsýsluna fara.

Það sem ég les kannski helst út úr frumvarpinu og tel mikið fagnaðarefni fyrir þau sjónarmið sem ég hef haldið fram í fjölmörgum ræðum hér um vatnamálin á umliðnum árum er að þetta frumvarp hróflar auðvitað ekki í neinu við eignarráðum landeigenda á þeim vatnsréttindum sem fylgja og fylgja skulu fasteignum þeirra. Það verður því ekki séð að með þessu frumvarpi sé verið að ganga á eignarrétt landeigenda yfir þeim vatnsréttindum sem þar finnast og það er auðvitað vel.

Ég vildi bara koma þessum sjónarmiðum á framfæri og kannski fyrst og fremst velta því upp og spyrja hæstv. umhverfisráðherra að því hvort við vinnslu frumvarpsins hafi verið litið til skýrslu vatnalaganefndar frá 2008 og þeirra sjónarmiða sem þar koma fram og tengjast vatnatilskipuninni og þeim athugasemdum og ábendingum sem fram komu í nefndinni um stjórnsýslu vatnamála.