139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[18:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að undirstrika að það er gríðarlega mikilvægt að við umgöngumst vatnið okkar, þá auðlind sem það er, af mikilli varfærni og nærgætni, svo að það fari ekki á milli mála. Ég held hins vegar að það ætti ekki að vera flókið fyrir okkur að fá undanþágu vegna þessarar tilskipunar, bara vegna sérstöðu landsins. Það er hvergi nokkurs staðar held ég, a.m.k. ekki innan Evrópusambandsins, jafnmikið af hreinu og fersku vatni og hér, og fjölbreytilegt vatn, þannig að manni fyndist að við ættum að njóta þess, að það þurfi ekki að setja á okkur þá kröfu að innleiða þessa tilskipun. Á þeim tímum sem nú eru snýst þetta að sjálfsögðu um forgangsröðun á fjármunum og því miður er það nú þannig að það er ekki mikið borð fyrir báru hjá ríkissjóði til að fara í ákveðin verkefni sem margir hv. þingmenn og ábyggilega flestir gætu talið að væru mjög mikilvæg. Nefni ég bara þær harkalegu aðgerðir sem við erum að fara í gagnvart örorku- og ellilífeyrisþegum og heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið, og ég held að þetta væri eitt af þeim málum sem við gætum reynt, og höfum mjög sterk rök fyrir því, að fá frestað.

Það ætti ekki að mínu viti að vera flókið að sannfæra þá í Evrópusambandinu um að við gætum fengið þessu frestað. Ef það væri niðurstaðan, virðulegi forseti, að þeir mundu hóta því að fara í mál við okkur vegna þess að við værum ekki búin að innleiða þessa tilskipun, er það kannski ákveðinn vegvísir inn í framtíðina þar sem margir hv. þingmenn sjá nú allt það fagra í Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á kostnaðinn við þetta frumvarp. Það kostar ríkissjóð 140 millj. kr. á næstu tveimur árum að innleiða þessa tilskipun. Mér finnst þeir fjármunir allt of miklir og ég hefði vinsamlegast viljað beina því til hv. umhverfisnefndar og hæstv. umhverfisráðherra að draga nú aðeins saman seglin í málinu, þ.e. að þó að menn settu málin hugsanlega eitthvað í gang á næsta ári, sem ég teldi æskilegt að gera ekki, þá væru settir mjög litlir fjármunir í það til þess að við séum þó að vinna í tilskipuninni — eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra hér áðan er gert ráð fyrir því að þetta verði að fullu tekið í gildi 2024. Það er mjög mikilvægt að menn skoði þetta með þessum huga.

Eins og ég sagði hér áðan höfum við sterk efnisleg rök í málinu sem lúta að því hversu gott vatn við höfum og hve lánsöm við erum að eiga þessar miklu vatnsauðlindir. Ég hefði hins vegar talið að ef þetta borð væri fyrir báru hjá hæstv. umhverfisráðherra í ráðuneytinu væri meiri þörf fyrir það, eins og við höfum nú bara séð í fréttum undanfarna daga, að hlúa enn þá meira að þeim náttúruperlum sem þegar liggja undir miklum skemmdum. Við gerum okkur miklar vonir um það og væntingar að ferðamannastraumurinn til landsins verði enn meiri en hefur þó verið á undanförnum árum. Ég tel því að það væri nær að setja fjármuni þar.

Þó að ég sé ekki hrifinn af skattahækkunum vil ég samt að það komi fram í þessari umræðu, af því að ég mun gagnrýna þá gjaldtöku sem er færð yfir á fyrirtækin við innleiðingu þessarar vatnatilskipunar, að ég tel — af því að við höfum oft tekist á um það hér í sölum Alþingis og ég hef verið eindreginn andstæðingur þess að taka upp ferðamannaskatta var mér tjáð það fyrir nokkrum vikum að gert var átak á vegum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í tilefni þess að hv. fjárlaganefnd úthlutaði til þjóðgarðsins um 10 millj. kr. — í fyrsta sinn síðan þjóðgarðurinn var stofnaður og hann verður 10 ára á næsta ári — var ráðist í mikið átak sem var reyndar mikið unnið í sjálfboðavinnu. Eitt af þeim verkefnum sem ráðist var í var að gera vatnshelli aðgengilegan fyrir ferðafólk sem naut mikilla vinsælda og er mikil náttúruperla. Brugðið var á það ráð að taka gjald fyrir að fara niður í umsjón fólks sem var frá Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Mér var sagt að ekki einn einasti ferðamaður, hvorki innlendur né erlendur, sem naut þessarar leiðsagnar og fékk að skoða þessa náttúruperlu, hafi gert athugasemdir við gjaldtökuna, ekki einn. Þetta er hlutur sem við ættum að skoða og ræða, hvort við ættum að gera þetta inn á þessar viðkvæmu náttúruperlur sem liggja undir skemmdum. Ég held að við ættum að skoða þessa leið og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að gera það.

Eins og ég hef áður sagt mun þetta mál hækka útgjöld ríkisins um 140 millj. kr. á næstu tveimur árum. Það sem tekur við er að atvinnufyrirtækin munu fara að greiða þennan kostnað og það verður þá lagt á atvinnulífið í staðinn fyrir að vera greitt úr ríkissjóði. Ég vil minna á að alls staðar er verið að hækka skatta með einum eða öðrum hætti, beinum og óbeinum, á bæði einstaklinga og fyrirtækin í landinu. Þetta er einn af mjög mörgum, fyrir utan allar þær breytingar sem eru í tekjusköttunum og það, en öll þessi gjöld eru að hækka alls staðar. Ég verð bara að minna á það að í umræðu um fjáraukalagafrumvarpið, sem við vorum í bara síðast í gær, kom fram að það sem veldur mestum áhyggjum á árinu 2010 er minni fjárfesting á árinu, þ.e. reiknað var með að fjárfesting mundi aukast um rúm 4% árið 2010 en niðurstaðan varð sú að hún dróst saman um tæp 15%, þ.e. 20% samdráttur í fjárfestingum sem gerir það að verkum að það er enginn hagvöxtur, eða mjög lítill, þyrfti að vera miklu meiri. Mig langar því að koma því á framfæri að ef við ætlum endalaust að hækka skattana, leynt og ljóst, alls staðar, munu hvorki fyrirtækin né heimilin geta fjárfest. Það liggur alveg fyrir. Það er algjörlega klárt í mínum huga.

Ég velti því líka fyrir mér, virðulegi forseti, eins og ég sagði hér áðan: Hver eru í raun og veru vandamálin í dag við þau lög og þær reglur sem gilda á Íslandi? Ég hef ekki orðið var við að útflutningsfyrirtækin hafi kvartað yfir því að þessi vatnatilskipun hafi ekki verið innleidd, það hefur ekki háð þeim í útflutningnum. Ég spyr bara: Er þetta bara til þess að þjónka einhverri tilskipun frá Evrópusambandinu? Er ekki komið nóg af því? Við ættum að vera búin að læra af því í gegnum tíðina og var sérstaklega getið um það í skýrslu þingmannanefndarinnar sem við afgreiddum hér öll sem eitt, með 63:0 sem oft er vitnað í. Þar var einmitt sérstaklega vakin athygli á því að hv. Alþingi hafi oft verið of fljótt á sér að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu, það mætti hægja á því og skoða betur hvað það hefði í för með sér, bæði árangur og annað, þó að ég geri mér grein fyrir því að þessi tilskipun er að verða 10 ára gömul eða þar um bil. Ég held hins vegar að við höfum öll rök í málinu til að fá Evrópusambandið til að falla frá áætlunum um að hóta okkur málssókn og annað. Ég hvet hæstv. ráðherra til að draga úr hraðanum á þessu máli og þurfa ekki að eyða þessum 70 millj. kr. á næsta ári í þetta. Það eru sko nóg önnur verkefni sem við getum farið í sem eru miklu mikilvægari til að styrkja innviði samfélagsins en að setja þá í þetta.

Ég er ekki að gera lítið úr því að við þurfum að sjálfsögðu að ganga vel um auðlindina okkar, vatnið, og ekki líta á það sem sjálfsagðan hlut sem við getum gengið um eins og okkur sýnist. Fyrst og fremst snýst þetta þó um forgangsröðun á fjármunum í því ástandi sem er núna og síðan velti ég líka fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það sé sanngjarnt að fyrirtækin sem eru í dag að greiða vatnsgjald til sveitarfélaganna sem skatt til sveitarfélaganna, að það þurfi að greiða líka sérstakt gjald til þess að tryggja eftirlit og vöktun og umhverfismarkmið. Fyrirtækin hafa engin áhrif á þessa hluti. Þau eru bara að nýta vatnið og greiða fyrir þá notkun til sveitarfélaganna þannig að þetta er bara viðbótarskattur á fyrirtækin. Ég vara mjög eindregið við því, virðulegi forseti, að menn fari þessa leið og sjái það alltaf sem sjálfsagðan hlut að velta endalaust kostnaðinum yfir á fyrirtækin eða fólkið í landinu.

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem flutti hér nokkuð snjalla og góða ræðu áðan, taka undir það sem hann benti réttilega á, að þetta verði hugsanlega þunglamalegt kerfi, sem verður að sjálfsögðu skoðað í meðförum hv. umhverfisnefndar þar sem hv. þingmaður er formaður þeirrar nefndar, og mundi hugsanlega hafa í för með sé aukakostnað fyrir skattgreiðendur og síðan þunglamalegt og líka svona vesen í stjórnsýslunni. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði. Það sem hann sagði í stuttu máli, virðulegi forseti, var: Við skulum draga andann, fresta þessu máli þangað til við höfum náð jöfnuði í ríkisfjármálum því að framtíð okkar veltur á því að gera það og ég tel, ítreka það enn og aftur, að öll rök í þessu máli hníga að því að við ættum að geta fengið undanþágu frá því að innleiða þessa tilskipun í ljósi sérstöðu landsins.