139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[18:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við fjöllum um frumvörp hér í þinginu er auðvitað augljósast að við spyrjum okkur sjálf: Er líklegt að þetta frumvarp sé til góðs eða ills? Er þetta til framfara eða hið gagnstæða? Þetta er sú spurning sem við verðum að spyrja okkur núna varðandi þetta frumvarp en hins vegar er alveg rétt sem sagt hefur verið í umræðunni að það er ekki eina spurningin sem yfir okkur vakir. Það liggur fyrir að þetta er hluti af tilskipanaverki EES og við höfum skuldbundið okkur til að innleiða þessa tilskipun í fyrsta lagi með samþykkt í sameiginlegu nefndinni og í öðru lagi ákvörðun Alþingis. Þá er verkefnið í framhaldinu að gera það með lagabreytingu ef á þarf að halda. Niðurstaðan er sú að þessi tilskipun felur í sér það mikla breytingu að hún kallar á að lögum verði breytt.

Það er alveg rétt að þetta vekur upp alls konar spurningar sem ég ætla í sjálfu sér ekki að dvelja mikið við nema það að þetta gerir það að verkum að þingið fær það hlutverk að bera saman tilskipunina sem frumvarpið byggir á og það frumvarp sem við höfum hér í höndunum. Það getur verið býsna mikið vandaverk að gera það en er óhjákvæmilegt þegar um svona mikið mál er að ræða að verði gert vel og samviskusamlega. Ég trúi því og treysti að hv. umhverfisnefnd muni gera það.

Alþingi hefur líka svigrúm til að gera aðrar þær breytingar á þessu lagaverki sem meiri hluti Alþingis eftir atvikum telur skynsamlegt. Þess vegna er Alþingi ekkert að öllu leyti bundið af þessari tilskipun, t.d. er lýtur að stjórnskipuninni, sem hér hefur verið gagnrýnt. Ég held að að mörgu leyti sé í frumvarpinu tekið tillit til séraðstæðna okkar með þátttöku fleiri stofnana utan verksviðs umhverfisráðuneytisins, svo sem Hafrannsóknastofnunarinnar og Veiðimálastofnunar. Fyrir fram tel ég að það sé alls ekkert óskynsamleg nálgun að gera það með þeim hætti. Ég tel þvert á móti mjög mikilvægt fyrir okkur að gleyma því ekki sem við höfum þegar byggt upp í stofnanaumhverfi okkar. Þá kemur auðvitað upp fyrsta spurningin sem mér finnst ástæða til að velta hér upp: Er líklegt að þetta frumvarp geri það að verkum að einhver þau verkefni sem nú er verið að leggja upp með skarist við viðfangsefni annarra stofnana sem hafa sinnt þessum verkefnum?

Þar kemur sérstaklega upp í huga minn verkefni á vegum Veiðimálastofnunar. Veiðimálastofnun hefur séð um rannsóknir í vötnum landsins og gert það með mikilli prýði. Það kemur einmitt fram í greinargerðum og fylgiskjölum með þessu frumvarpi að Veiðimálastofnun hafi unnið að því að gera ástandslýsingu fyrir öll vatnasvæði landsins og sjá síðan til þess að þau verði vöktuð. Ég tel mjög mikilvægt að þessari vinnu verði haldið áfram og tel langsamlega eðlilegast að það verði gert innan vébanda Veiðimálastofnunar. Þar er sú þekking til staðar sem við þurfum á að halda og er mjög mikilvægt þess vegna að reyna að tryggja að þeirri þekkingu verði viðhaldið, einmitt þar sem hún hefur orðið til. Þess vegna er eiginlega mín fyrsta og helsta spurning þessi: Hefur verið farið vel yfir það hvort verkefni sem leiða af þessari tilskipun eða muni leiða af þessu frumvarpi, verði það að lögum, skarist ekki við önnur verkefni og þá sérstaklega á sviði Veiðimálastofnunar?

Hæstv. ráðherra talaði um að mikið samráð hefði verið haft þegar þetta mál var undirbúið og mér er alveg kunnugt um að slíkt samráð átti sér stað, t.d. við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á þeim tíma sem ég sat þar. Ég hef ekkert undan því að kvarta frá þeim tíma. Það kemur hins vegar fram í umsögn Bændasamtakanna frá því í ágúst á þessu ári um það frumvarp sem þá var til meðhöndlunar, sem er í rauninni þetta frumvarp hér, að ekki var haft samráð við þau. Þetta hefur komið mér nokkuð á óvart vegna þess að það leiðir af eðli máls að bændur eru landeigendur, bændur eru þar með eigendur að vatni og hafa þar mikilla hagsmuna að gæta. Það er alveg rétt sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan, og er fagnaðarefni, að í þessu frumvarpi er ekki gengið gegn eignarrétti landeigenda. Þarna geta samt sem áður verið atriði sem skipta máli frá sjónarhóli landeigenda og þess vegna hvet ég til þess í meðferð þingsins að sérstaklega verði gætt að því að leita eftir umsögnum bænda og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar kunna að koma fram.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þessa umræðu mikið umfram þetta. Það sem ég hefði viljað segja er komið fram í máli annarra hv. þingmanna sem hér hafa talað.

Aðeins eitt að lokum: Hér hefur dálítið verið rætt um mál og stíl og ég ætla mér út af fyrir sig ekki þá dul að bæta neinu við það sem hv. þm. Mörður Árnason hafði um þau mál að segja, hann er mér miklu fremri á því sviði. Hann kom líka inn á hugtökin sem eru skýrð í 3. gr. frumvarpsins og nefndi það í „forbífarten“, svo ég fylgi einhverri svona reiðareksstefnu í málfarslegu tilliti, hann nefndi það í framhjáhlaupi að sum þessara hugtaka væru svo augljós að þau væru, svo ég aftur noti nú reiðareksstefnuna, „selvfølgeligheder“ eða sjálfsagðir hlutir sem þyrfti ekki að útskýra.

Ég er ekki alveg viss um þetta. Mín reynsla af lagasetningu er einmitt sú að það er aldrei of varlega farið í því að reyna að gæta þess að skilgreina hugtök. Ég er svo gamall hér að ég þekki það að þegar við fjölluðum fyrir margt löngu um frumvarp til laga um fjöleignarhús vakti það mikla kátínu úr ræðustóli Alþingis að í því frumvarpi sem þá var lagt fyrir Alþingi lögðu menn á sig að reyna að skilgreina hugtakið hús. Mönnum fannst það blasa við, en fyrir þá sem ekki þekkja og vita hvað hugtakið hús þýðir get ég upplýst hér eftir minni að það þýðir í raun og veru eitthvert fyrirbæri sem er varanlega skeytt við land. Þetta þótti náttúrlega býsna fyndið á þeim tíma en niðurstaða félagsmálanefndar á þeim árum varð sú að gera frekar þessa skilgreiningu enn þá ítarlegri og nákvæmari þannig að ég hlýt að taka með miklum fyrirvara gagnrýni hv. þm. Marðar Árnasonar á þessar skilgreiningar á hugtökum þó að þau virðist við fyrstu sýn býsna augljós og skiljanleg öllum. Ég tek þannig til varna fyrir hæstv. ráðherra og tel að fyrir fram eigi menn að varast að henda út hugtakaskilgreiningum í lögum jafnvel þó að menn telji þau fyrsta kastið sjálfsagða hluti sem ekki sé hægt að villast á.