139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil koma á framfæri svipuðum mótmælum og fleiri hafa komið fram hér hvað það varðar að við erum að liðka til fyrir fjármálaráðherra, koma hér að máli, og hvar er þá hæstv. fjármálaráðherra? Frú forseti, ég hef ekkert á móti því að hæstv. umhverfisráðherra flytji þetta mál í forföllum fjármálaráðherra. En það er mjög merkilegt að vera að breyta dagskrá þingsins til að koma máli sem þessu að og fagráðherrann sjálfur er ekki á svæðinu til að fylgja því eftir. Það er þá spurning hvort gera eigi hlé á fundinum og doka eftir því að ráðherra komist í hús til að fylgja þessu úr hlaði.

Það er ekki í takt við þá umræðu sem var hér fyrir stuttu um að liðka til fyrir þingstörfum og slíku. Ég vil meina að komið sé aftan að þingmönnum stjórnarandstöðunnar með þessu móti því að við viljum auðvitað eiga samræður við hæstv. fjármálaráðherra um þau mál sem hann vill koma í gegn.