139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[19:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð einboðið hvernig við verðum að haga vinnu okkar í þinginu í kvöld. Það er alveg augljóst að við getum ekki tekið á dagskrá mál sem hæstv. fjármálaráðherra fer með í sambandi við tekjuöflun. Þingmenn þurfa að ræða við fjármálaráðherra um málin.

Það er önnur hlið á þessu máli. Það gengur ekki að við í stjórnarandstöðunni séum neydd til þess að hliðra fyrir þingstörfum. Það getur verið skynsamlegt að gera það til að koma áríðandi málum á dagskrá en að við séum síðan göbbuð til þess á meðan hæstv. fjármálaráðherra þarf að bregða sér milli landshluta á opna stjórnmálafundi. Það er ekki hægt að koma svona fram, hvorki við þingið, forseta þingsins, stjórnarandstöðuna eða nokkurn mann. (Forseti hringir.) Það liggur í augum uppi með hvaða hætti við þurfum að haga þingstörfunum á næstu klukkutímum.