139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[19:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við sem fylgdumst með þingstörfunum í dag sáum að það var mikill vilji til þess að greiða fyrir þeim og taka mál á dagskrá sem ríkisstjórnin taldi mikilvægt að yrðu afgreidd. Við höfum skilning á því að afgreiða mál til 2. umr. sem á að taka fyrir á eftir, mál nr. 2 á dagskránni. Það er enginn ágreiningur um það. En það hafði enginn ímyndunarafl til að láta sér detta það í hug að hæstv. fjármálaráðherra yrði ekki viðstaddur þessa mikilvægu umræðu. Það er búið að færa mikilsverð rök fyrir þessu. Ég minnist þess satt að segja ekki að reynt væri að smygla máli af þessu taginu inn í þingið án þess að sá sem flytti svona stórt mál væri viðstaddur.

Varðandi það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði þá hefur enginn andmælt því að hægt væri að afgreiða 1. málið á dagskránni. Það hefur ekki snúist um það. Við erum einfaldlega að segja að það gengur ekki og það er ekki (Forseti hringir.) boðlegt fyrir nokkurn mann, síst af öllu Alþingi, að fara af stað með umræðu um (Forseti hringir.) 2. dagskrármálið öðruvísi en hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur.