139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[19:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og tengist það sjúkdómatryggingum.

Þetta frumvarp er sett fram og er afturvirkt til ívilnunar fyrir þá sem keyptu sér sjúkdómatryggingu fyrir 1. desember 2010. Eftir 1. desember 2010 verða hins vegar sjúkdómatryggingar eða bætur úr sjúkdómatryggingum taldar sem tekjur og skattlagðar sem slíkar.

Áðan var þetta frumvarp kallað réttarbót, þá væntanlega þessi afturvirkni til ívilnunar, því að fram til þessa hafa tryggingafélög að því er virðist selt viðskiptavinum sínum þessar tryggingar með því fororði að þær væru ekki skattskyldar sem slíkar. Að því leyti má segja að frumvarpið, með afturvirkni til ívilnunar fyrir þá sem hafa keypt tryggingarnar með þessu fororði, sé réttarbót. En fyrir þá sem kaupa hins vegar tryggingar eftir 1. desember 2010 er ljóst að litið verður á bætur úr sjúkdómatryggingum sem tekjur og þær skattlagðar.

Við það vakna hjá mér margar spurningar sem mér þætti æskilegt að hæstv. ráðherra gæti svarað og þær eru eftirtaldar:

Í fyrsta lagi kaupir fólk sér sjúkdómatryggingu, greiðir af henni iðgjald af tekjum sínum sem þegar hafa verið skattlagðar, síðan veikist fólk og fær greitt út úr sjúkdómatryggingu sinni, það teljast tekjur og aftur þarf að greiða skatt. Munu iðgjöldin í því tilviki, þ.e. frá því að sjúkdómatryggingin er keypt og þar til hún verður að tekjum, verða frádráttarbær til skatts þegar tryggingin verður útgreidd og talin sem tekjur? Ef svo er ekki hlýtur að vera um tvísköttun að ræða eða í það minnsta leyfi ég mér að líta þannig á hlutina. Þess vegna óska ég eftir að fá svör við því hvort iðgjaldið frá því að tryggingin er keypt og þar til hún fer að teljast tekjur verði frádráttarbært til skatts.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra annarrar spurningar. Hún tengist bílatryggingum. Segjum sem svo að sú sem hér stendur eigi bíl sem er í kaskó og af honum greiði hún iðgjöld, lendi síðan í slysi sem hún valdi sjálf með aksturslagi sínu og bíllinn eyðileggist. Hún fær kaskótrygginguna fyrir ónýtan bíl og ákveður að leggja þá peninga til hliðar þar sem hún er ófær um akstur vegna slyss. Hún fær síðan greitt út úr sjúkdómatryggingu sinni sem hún jafnframt keypti. Er þá kaskótryggingin, greidd út í peningum, verðgildi bílsins, líka orðin að skattskyldum tekjum þar sem þeir peningar voru ekki nýttir til að kaupa nýjan bíl?

Kaskótrygging er keypt til að tryggja fólk enn frekar en hinar almennu tryggingar gera. Sömu sögu er að segja um sjúkdómatryggingar. Þær eru keyptar til þess að tryggja fólk enn frekar fyrir slysum, sjúkdómum og öðru þess háttar. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra svaraði þessum tveimur spurningum og hvort þetta væri þá að hluta til sambærilegt.

Að lokum, frú forseti, legg ég til að hv. efnahags- og skattanefnd endurskilgreini hvað eru tekjur og hvað ekki og hvað eru skattskyldar tekjur, fyrst og síðast.

Mér finnst þetta frumvarp, eins og það er lagt fram, gott hvað varðar afturvirkni til ívilnunar — að þeir sem hugsanlega hafa greitt skatt af þessum bótum sínum fái hann hugsanlega endurgreiddan ef ríkisskattstjóra er veitt heimild samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laganna. Þá er það réttarbót, en ekki fyrir aðra. Í frumvarpinu stendur að þessar tekjur hafi almennt ekki verið gefnar upp til skatts og þess vegna hafi ríkissjóður eða skattstjóri í sjálfu sér enga hugmynd um hversu mikið hafi verið greitt út.

Í þriðja lagi, verði þetta frumvarp að lögum, verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkið eðli málsins samkvæmt vegna þess að ríkið hefur lítið sem ekkert haft í skatttekjur af þessu og útgjöld þess hafa ekki verið nein svo ekki geta þau aukist þar sem engin hafa þau verið.