139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[19:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég fer í fyrsta lagi fram á að kölluð verði í salinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Birgir Ármannsson, vegna þess að þau tíðindi hafa nú borist að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í kvöld neitað vegna pirrings yfir gangi mála á dagskránni að tekin yrðu fyrir frumvörp um mannvirki og brunavarnir sem hafa verið á dagskrá í allan dag, voru á dagskrá númer tvö og þrjú á eftir störfum þingsins, hafa síðan verið á dagskrá á öllum þeim fundum sem hingað til hafa verið haldnir og eru enn á dagskrá.

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki sökótt við neinn út af þessum frumvörpum um mannvirki og brunavarnir. Þau voru afgreidd úr umhverfisnefnd til 2. umr. í fullum einhug þó að tveir þingmenn hefðu skrifað undir með fyrirvara. Það er mikilvægt fyrir þingið að klára þessi mál fyrir áramót og í umhverfisnefnd höfðu menn lofað hver öðrum því að standa við það fyrirheit frá því í september að afgreiða frumvörpin til þingsins og gera þau að lögum (Forseti hringir.) fyrir áramót. Ég skil ekki og ég vil fá skýringar á því hvað Sjálfstæðisflokknum gengur til að beita sér gegn þessum tveimur frumvörpum.