139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Þingflokkurinn styður frumvarpið en ég held að rétt sé að taka fram, og til þess er ég hér komin upp, að þingflokkurinn er alfarið á móti skattlagningu á þessum tryggingabótum, bæði fyrir og eftir 1. desember 2010.

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, er fylgjandi því að við höfum góðar sjúkra- og slysabætur í almannatryggingakerfinu sem tryggja fólki sem ekki á réttindi í sjúkrasjóðum möguleika til framfærslu þrátt fyrir alvarlega sjúkdóma. Við vitum samt öll að þær bætur sem almannatryggingakerfið býður eru ákaflega lágar og að ríkið er ekki í stakk búið til að auka þær á þeim tímum sem við lifum nú, við mikinn niðurskurð. Það eru meira en 40 þús. einstaklingar sem hafa keypt sér sjúkdómatryggingar, trúandi því að þær væru skattfrjálsar. Tryggingafélögin seldu tryggingarnar á þeim forsendum og má kannski segja að þar hafi þau gert ákveðin mistök. Ég tel þó rétt að vísa til þess að hjá öðrum ríkjum Norðurlanda, sem eru þau ríki sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, eru sjúkdómatryggingar sem þessar skattfrjálsar með sama hætti og líftryggingar. Með þessum breytingum, án fyrirvara um skattlagningu eftir áramót, færum við löggjöfina hér á landi um líf- og sjúkdómatryggingar í það horf sem hún er annars staðar á Norðurlöndunum.

Bent hefur verið á eitt sem er afskaplega slæmt varðandi þessar tryggingar. Sá sem ekki á rétt í samtryggingakerfum, nema þá í almannatryggingakerfinu með afskaplega lágum bótagreiðslum eins og ég áður sagði, og viðkomandi hefur verið með sjúkdóm eða er í áhættuhópi, þá hefur hann ekki tök á að kaupa sér slíka tryggingu. Þetta er alvarleg mismunun. Það er ákveðinn hópur í samfélaginu sem á ekki rétt á tryggingum á við aðra samfélagsþegna.

Ég styð þessa breytingu og þá að hún verði til langframa þrátt fyrir að ég trúi því að við eigum að hafa almannatryggingakerfi sem tryggir okkur öll fyrir skakkaföllum þannig að við höfum svipaðar ráðstöfunartekjur í einhvern tíma eftir að veikindi koma upp. Ég held að mikilvægt sé að muna í umræðunni að launafólk þarf að vinna ákveðinn tíma til að vinna sér rétt í sjúkrasjóðum og síðan er það svo á vinnumarkaði nútímans að fjöldi fólks er ekki í fastri vinnu, fær ekki fasta vinnu heldur býr við tímabundnar ráðningar. Það býr ekki við atvinnuöryggi og velur því að kaupa sér slíkar tryggingar til að tryggja sér framfærslu þrátt fyrir veikindi. Það má því segja að ef við ákveðum að skattleggja þessar tryggingar þá skattleggjum við fólk sem býr ekki almennt við sama atvinnuöryggi og launamenn í fastri vinnu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði.