139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um tvennt vegna orða hennar áðan. Hún ræddi að hún vildi ekki skattleggja þessar bótagreiðslur eða tryggingabætur. Mig langar í framhaldi af því að spyrja hana hvort henni þætti þá ekki að það sama ætti við um styrki og framlög úr fjölskyldu- og styrktarsjóðum verkalýðsfélaganna. Með greiðslum inn í þá sjóði er fólk í eðli sínu að kaupa sér nokkurs konar tryggingu á sama hátt, þ.e. að tryggja sig fyrir óvæntum áföllum þótt það sé ekki með jafnbeinum hætti og þarna. Ættu þær bætur ekki að vera skattfrjálsar einnig? Í dag er lagður á þær fullur tekjuskattur.

Í öðru lagi langar mig að spyrja þingmanninn að því hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að með því að ýta undir skattfrelsi bóta af þessu tagi sé í rauninni verið að styrkja kerfi til hliðar við almannatryggingakerfið, skapa þar hagsmuni sem getur verið erfitt á seinni stigum að ganga gegn og þar með éta smátt og smátt úr almannatryggingakerfinu þótt það hafi alls ekki verið ætlunin í upphafi.