139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna eru launþegar almennt ekki með góðar tryggingar? Það er vegna þess að þeir eru ekki launþegar, þeir eru verktakar. Og hvers vegna eru menn verktakar? Það er vegna þess að á undanförnum árum hefur verið gerð sú krafa, meira að segja í ríkisstofnunum og ég nefni bara Ríkisútvarpið sem dæmi sem allir hér í salnum hljóta að þekkja, að menn segi sig frá þeim réttindum og skyldum sem launasamningi og aðild að stéttarfélagi fylgja og samningum stéttarfélaga við ríkið eða aðra atvinnurekendur. Gerð hefur verið krafa um að menn segi sig frá því og taki upp vinnusamning sem er verktaka og þá greiða menn gjöld með allt öðrum hætti og njóta ekki trygginga.

Þetta er ástand sem við höfum, jafnaðarmenn, gagnrýnt. Við höfum gagnrýnt það að verið sé að henda fólki út á akurinn og meina launþegum að njóta þeirra réttinda sem þeir eiga að njóta, því að þeir eru í reynd að vinna sem launamenn. Það liggja fyrir dómar um slíkt. Ég get nefnt dóm um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem dæmt var að læknir sem var ráðinn í verktöku hafi í reynd verið með launasamning og verið launþegi við stofnunina. Hann greiddi enga skatta og greiddi eflaust sínar tryggingar allar sjálfur. Stofnunin var engu að síður dæmd til þess að greiða alla skattana vegna þess að það var metið svo að þetta hefði verið eiginlegt launasamband.

Þetta er allt annað mál sem við erum að tala um, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og (Forseti hringir.) ég hygg að við yrðum sammála ef við ræddum þetta pínulítið lengur í einrúmi.