139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þó að ég telji það með ólíkindum að þurfa að segja það hér ætla ég samt sem áður að gera það til vonar og vara: Að sjálfsögðu fordæmi ég ólöglega verktöku og þá meina ég verktöku sem í raun og veru er launavinna. En ég vil líka bjóða hv. þingmann velkominn inn á 21. öldina þar sem er fjöldi fólks sem er búinn að leggja á sig langt nám eða er að koma út á vinnumarkaðinn með lítið nám og fær ekki fastráðningu, er á fjölda vinnustaða, er ráðið tímabundið og er sannarlega launamenn en nær ekki að vinna sér inn þau réttindi sem eru nauðsynleg til þess að geta séð sér farborða ef til sjúkdóma kemur. Þetta er fjöldi fólks sem býr í þessu samfélagi, fólk jafnvel komið á fimmtugsaldur eftir að hafa lagt á sig miklar fjárfestingar til að geta menntað sig.

Við erum líka með hópa af ungu fólki sem væntanlega er ekki inni í þessum tryggingahópi og stendur enn verr, er með litla menntun og er í einhverjum hlutastörfum tímabundið. En það er bara þannig að málið snýst ekki um ólöglega verktöku heldur um allan þann hóp fólks sem er í tímabundnu ráðningarsambandi og veit aldrei hverjar aðstæður þess verða á næsta ári, hefur fyrir fjölda fólks að sjá og vilja tryggja sig með þessum hætti.

Ef hv. þingmanni er mikið í mun að gefa það í skyn að ég sé hér með einhverjar skoðanir sem ýti undir starfsemi á einkamarkaði getur hún svo sem haft það þannig fyrir sig en fyrir mér er þetta bara blákaldur veruleiki fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem byggja þetta samfélag.