139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki af meinbægni við menntamenn eða ungt fólk sem ég stend hér og vara við því að við séum að festa í sessi tvöfalt sjúkdómatryggingakerfi í landinu, langt í frá. Ég verð að segja að ég fagna því auðvitað að við erum sammála um að þessi verktakabransi eða verktakakrafa sem hefur verið sett á menn sem eru í eiginlegri launavinnu sé ekki af hinu góða. Nú segir hv. þingmaður að hún sér frekar að tala um þá sem eru í styttra eða tímabundnu ráðningarsambandi við vinnuveitendur og séu þess vegna í óöryggi um framtíð sína.

Hv. þingmaður býður mig velkomna inn á 21. öldina og ég veit svo sannarlega hvar við stöndum þar þegar um er að ræða heilsu manna og tryggingafélög. Þar hefur nefnilega orðið á ansi mikil breyting. Hver skyldi sú breyting vera? Hún er til að mynda fólgin í því að það geta alls ekki allir í hversu stuttu eða löngu ráðningarsambandi þeir eru við vinnuveitendur, hvort sem þeir eru menntaðir eða ungir, keypt sér þær tryggingar sem hér um ræðir, svo mikið er nú jafnræðið, vegna þess að tryggingafélögin gera kröfu til þess að fá persónugreinanlegar upplýsingar og staðfestingu á heilsufari fólks áður en þeir selja viðkomandi slíkar tryggingar.

Hvert er svar okkar, hvert á svar okkar að vera á 21. öldinni við þessari stöðu? Jú, frú forseti, að verja það tryggingakerfi sem við höfum, að verja skattkerfið okkar og bæta það en ekki grafa undan því.