139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum ýmis tryggingakerfi. Sum þeirra tryggja menn fyrir tekjufalli eða tekjumissi, önnur tryggja menn fyrir tjóni sem þeir verða fyrir, bíll fer í klessu, hús brennur eða eitthvað slíkt. Það má vel vera að iðgjaldið ætti að vera frádráttarbært frá skatti af þeim tryggingum sem tryggja menn fyrir tekjutjóni, en bæturnar ættu hins vegar að vera skattskyldar af því að þær koma í staðinn fyrir tekjur sem maður missir en sem voru skattskyldar.

Mér finnst hins vegar að iðgjaldið ætti ekki að vera frádráttarbært frá skatti af þeim tryggingum sem tryggja menn fyrir tjóni á munum, og heldur ekki bæturnar því að þær dekka jú ákveðið tjón sem fólk verður fyrir og eru í rauninni enginn tekjuauki hjá manni ef húsið hans brennur eða ef bíllinn hans fer í klessu. Það finnst mér að gæti verið grundvallaratriði varðandi skattlagningu iðgjaldsins hvort það sé frádráttarbært eða ekki.

Þetta er mjög góð og þörf umræða. Ég er bara ánægður með frumvarpið ef það leiðir til þess að menn fari að hugsa um rökrænar leiðir til að skattleggja eða veita skattfrelsi í iðgjöldum og bótum.