139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Þegar hann ræðir um tjón sem menn verða fyrir, eins og nefnt var fyrr í kvöld, ef bíll fer illa eða þegar um brunatjón er að ræða, er tjónið auðvitað metið. Til að mynda er tjónið metið þannig í brunatryggingum að skoðað er hvað það kostar að endurreisa það sem brann. Ef menn ákveða að endurreisa ekki það sem brann lækka bæturnar sjálfkrafa um 15%. Það eru því ýmsar reglur til í þessu.

Við erum hér að tala um mjög sérhæfðan og sérstakan þátt í bótum sem eru sjúkdómabætur eða bætur vegna sjúkdóms, einkatryggingar að því leytinu til. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að lokum, af því að hann ræddi af mikilli þekkingu fyrr í kvöld um greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga: Telur hann þá ekki að rétt sé, ef aflétt verður skattlagningu á sjúkdómabótum eins og hér um ræðir almennt, að um leið verði aflétt skattskyldu á greiðslum úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga? Hvað slær hann á að það mundi kosta ríkissjóð?