139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um tiltekna réttarbót sem mér virðast þingmenn að jafnaði fagna og vera sáttir við. Hins vegar hefur verið fjallað um þær tryggingar sem keyptar eru eftir þann tíma og mismunandi afstöðu til skattlagningar á þeim. Jafnvel hefur verið rætt um eðli og innihald og framsetningu jafnaðarmennsku í lengd og bráð og í sögulegu samhengi jafnvel. Ég tel að einboðið og rétt sé að hv. efnahags- og skattanefnd ræði þau mál í hörgul og taki þau til ítarlegrar umfjöllunar og má jafnvel gera það í sögulegu og pólitísku samhengi.

Hins vegar hefur hér verið rætt um með hvaða hætti tryggingakerfi eigi að vera fyrir komið til framtíðar í þessu samfélagi. Þær meginspurningar verða ekki leiddar til lykta í afgreiðslu eða umfjöllun þessa máls þó að ýmis sjónarmið þar að lútandi hafi verið tekin til umfjöllunar í andsvörum milli tveggja þingmanna hér, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég vænti þess að sú umræða, sem er grundvallarumræða, eigi sinn sess í því heildarendurmati sem nú stendur yfir í íslensku samfélagi og þarf að eiga sér stað inn í endurreist Ísland þar sem hægrið þarf að sitja á bekknum.