139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[20:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil lýsa furðu minni á því hringli með dagskrána sem hér hefur verið. Málin sem um er rætt, þ.e. 3. og 4. mál á dagskrá þessa fundar, hafa sætt því að farið hefur verið höfrungahlaup yfir þau. Þetta eru mál sem fullkomin samstaða er um í umhverfisnefnd, fullkomin samstaða mundi ég því ætla hér í þinginu. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig menn eru að blanda saman algjörlega óskyldum málum og algjörlega óskyldum atriðum á fundinum með þessum hætti.

Menn geta vissulega haft sínar skoðanir á því að hæstv. fjármálaráðherra eða aðrir ráðherrar séu ekki viðstaddir umræðu en hæstv. umhverfisráðherra, hv. formaður umhverfisnefndar sem og flestir þingmenn í umhverfisnefnd hafa beðið í þinginu í allan dag (Forseti hringir.) eftir að þessi mál kæmust á dagskrá.