139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[20:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki upplýst um það sem gerðist á fundum þingflokksformanna vegna þess að ég á þar ekki sæti og hef ekki átt aðild að neinum þeim samningum í dag sem snúist hafa um breytta dagskrá þingsins, ekki heldur þeim sem áttu sér stað fyrri part dags, þar sem ætlunin var að taka inn með afbrigðum, kalla saman nýja fundi, ræða fjáraukalög og færa til hluti sem síðan var hætt við. Svo komu ráðherrar hér í hús og málum var ýtt til hliðar til þess að hliðra til fyrir þeim. Ég veit að hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, sýndi langlundargeð í þeim efnum.

Síðla dags kemur svo upp ósk um að mál fjármálaráðherra séu tekin á dagskrá og þá er annað sett til hliðar. Ég þekki ekki þessa sögu betur en hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, og hann þekkir hana sjálfsagt betur en ég. Málið snýst einfaldlega um það að hringlað hefur verið fram og til baka með dagskrána og mörg mál, (Forseti hringir.) þar á meðal þessi sem hv. formaður umhverfisnefndar hefur nefnt, hafa fallið útbyrðis (Forseti hringir.) í öllum þeim bægslagangi sem stjórnarliðar verða, held ég, (Forseti hringir.) fyrst og fremst að ræða í eigin röðum.