139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

lækkun vaxtabóta og framvinda Icesave-viðræðna.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin niðurstöðu eftir samráðsferli við fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðina sem vekur m.a. athygli fyrir þær sakir að þar hverfur ríkisstjórnin frá fyrri áformum um að lækka vaxtabætur og húsaleigubætur sem hún kynnti með fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í október.

Mig langar til að bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvort ekki væri rétt að halda áfram að vinda ofan af nokkrum ákvörðunum sem fylgja fjárlagafrumvarpinu eins og þeirri að hækka hér skatta. Er ekki ástæða til að koma betur til móts við fólk í þessu landi með skattalækkunum?

Að auki vil ég bera upp við forsætisráðherra hvort ekki líði senn að því að nefndum Alþingis verði kynnt framvinda Icesave-viðræðnanna. (BirgJ: Heyr, heyr.) Kannast hæstv. forsætisráðherra við það að á vegum ríkisstjórnarinnar sé verið að kynna framvindu þeirra viðræðna fyrir aðilum úti í bæ á sama tíma og það er látið undir höfuð leggjast að kynna málið fyrir þingnefndum? Hverju sætir þetta? Hvernig stendur á því að þótt fresturinn til að svara Eftirlitsstofnun EFTA renni út á morgun hefur þingið ekki verið upplýst um þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gert til að svara ályktun ESA? Það er á morgun. Hæstv. forsætisráðherra fer fyrir ríkisstjórn sem kynnir stöðu málsins úti í bæ.

Við höfum rætt hér um virðingu þingsins og að treysta sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eru þessi vinnubrögð í einhverju samræmi við þær yfirlýsingar?