139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

lækkun vaxtabóta og framvinda Icesave-viðræðna.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður leggur fyrir mig margar spurningar. Við erum vissulega að hverfa frá því að lækka vaxtabætur eins og fyrirhugað var og hið sama gildir um húsaleigubætur. Það er liður í því að koma til móts við skuldavanda heimilanna sem er í verulegum mæli gert núna með þeim leiðum sem við förum. Vaxtaniðurgreiðslur og vaxtabætur munu verða 16–17 milljarða kr. hvort árið um sig sem mun skipta máli vegna þess að þá er sennilega um þriðjungur af vöxtum greiddur niður fyrir fólk með íbúðaskuldir.

Varðandi það að lækka skattana held ég að það sé ekki skynsamlegt. Hv. þingmaður veit jafn vel og ég að vaxtabyrði í landinu er gífurlega mikil og við þær aðstæður teljum við ekki rétt að færa niður skattana. Hv. þingmaður veit hvað það þýðir ef farin verður sú leið sem hv. þingmaður lagði til um að hverfa raunverulega frá öllum sköttum sem þessi ríkisstjórn hefur lagt á. Það mundi þýða annaðhvort verulega auknar vaxtagreiðslur eða verulega meiri niðurskurð og ég held að enginn vilji sjá meiri niðurskurð en við höfum farið í. Þvert á móti erum við að reyna að skoða hvort við höfum ekki svigrúm til að draga frekar úr útgjaldaniðurskurði frá því sem áformað var. Það verður væntanlega gert við 2. umr. fjárlaga.

Ég býst við því, eins og hv. þingmaður, að fljótlega dragi til tíðinda að því er varðar Icesave-málið. Vonandi getur það gerst í þessari viku. Þegar niðurstaða liggur fyrir verður málið að sjálfsögðu, og hv. þingmaður veit að enn standa út af tvö, þrjú atriði, (Forseti hringir.) kynnt fyrir utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd.