139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

lækkun vaxtabóta og framvinda Icesave-viðræðna.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki betur en að það hafi verið ágæt samvinna á undanförnum mánuðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Icesave-málinu. Stjórnarandstaðan hefur átt fulltrúa í samninganefndinni sem hefur verið að vinna þessi mál. Eins og ég skil málið hefur fulltrúi stjórnarandstöðunnar í þessari samninganefnd rætt það í stjórnarandstöðuþingflokkunum. Ef það er rétt vita náttúrlega allir þingmenn hvað stendur í þessum drögum sem alls ekki eru fullkláruð.

Mér finnst alveg sjálfsagt að kynna þetta sem fyrst fyrir utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd þegar svona liggur í málinu, en mér finnst ekki rétt að kynna það opinberlega, eins og hefur verið gert og maður (Gripið fram í.) heyrir í fréttum, fyrr en samningarnir liggja fyrir. Samningarnir eru ekki kláraðir (Forseti hringir.) fyrr en þeir eru endanlega í höfn og þá getum við fyrst farið að tala um innihald þeirra opinberlega.