139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Var ekki þessi setning svolítið lýsandi fyrir þessa ríkisstjórn? Það er alveg kvitt og klárt að það á að leita leiða. Þannig er þetta búið að vera býsna lengi, það á að leita leiða til að gera eitt og annað. Menn tóku sér tvo mánuði í að finna nýjar leiðir varðandi skuldamál heimilanna. Það kom ekkert nýtt út úr því — nema þetta eina og svo hefur ekki verið fundið út úr því enn þá hvernig menn ætla að gera það. Þó virðist ljóst, af svörum hæstv. forsætisráðherra, að það verði gert með skattlagningu, enda nægt svigrúm til að finna upp nýja skatta.

Hæstv. forsætisráðherra fór hins vegar ekkert út í það að svara spurningunni um Icesave svo að ég ítreka hana: Eru (Forsrh.: Hvenær spurðirðu …?) fyrirliggjandi einhver samningsdrög, drög að nýjum samningi í Icesave-málinu?

Og svo vegna þess að hæstv. forsætisráðherra talaði um sanngirni í þessari 110%-leið: Hvaða sanngirni er í því að ein fjölskylda í raðhúsi fái hugsanlega 15 millj. kr. niðurfærslu lána sinna en fjölskyldan í næsta húsi, sem er með 1 þús. kr. meira í mánaðartekjur, (Forseti hringir.) fái ekki neitt?