139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

orð utanríkisráðherra Hollands um Icesave og ESB.

[15:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu kom fram að samkvæmt þeirra heimildum hefði hollenski utanríkisráðherrann hringt í hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, í júlí í fyrra til að segja honum að Hollendingar mundu líklega koma í veg fyrir að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu yrði samþykkt þar til Íslendingar hefðu samþykkt að endurgreiða Icesave-skuldir sínar.

Hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að reka minni til þess að ég og hann höfum ítrekað átt orðaskipti yfir margvísleg fundarhöld hans og fundargerðir og skort á þeim í gegnum allt það ferli. Ég þráspurði hann á sínum tíma hér í þinginu um þá fundi sem hann hefði átt með erlendum aðilum, hvort haldnar hefðu verið einhverjar fundargerðir og hvort hægt væri að sjá þær. Það var ekki. Ég fékk að vísu lista yfir marga fundi en engar upplýsingar. Þingmenn hér á hinu háa Alþingi þráspurðu einnig hæstv. utanríkisráðherra og aðra ráðherra um tengsl Evrópusambandsumsóknarinnar og Icesave-málsins. Alltaf komu hæstv. ráðherrar og talsmenn ríkisstjórnarinnar gallharðir og sögðu að engin tengsl væru á milli þessara tveggja atriða.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort þessi frásögn Ríkisútvarpsins sé rétt, hvort umrætt símtal hafi átt sér stað, hvort utanríkisráðherra Hollands hafi hringt í júlí í fyrra með þessi skilaboð. Ég rifja það upp að aðildarumsóknin að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi í júlí, 17. júlí minnir mig, (Forseti hringir.) og Icesave 28. ágúst. — Þar sem klukkan var eitthvað í ólagi ætla ég að fá að ljúka máli mínu, með leyfi forseta. Ég spyr hvort þetta símtal hafi átt sér stað og þá í tilefni af endurlífgun Icesave hvort símtöl af þessu tagi eigi sér stað um þessar mundir eða samtöl.