139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Örstutt athugasemd vegna þess að hlut utanríkismálanefndar hefur borið á góma í þessari umræðu. Í tengslum við umræðu um Icesave-málið vil ég einfaldlega upplýsa að þeim skilaboðum hefur fyrir nokkru verið komið til viðeigandi ráðherra að koma með þetta mál til kynningar í utanríkismálanefnd þegar það er komið á það stig að eðlilegt sé að gera það. Eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra er auðvitað gert ráð fyrir því að fjárlaganefnd fái sambærilega kynningu þannig að ég á von á því að þegar málið er komið í þann búning að tilefni sé til að kalla þessar nefndir til fundar verði það að sjálfsögðu gert.

Hið sama á við um bréfið til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þegar það mál var hér til umfjöllunar fyrr í haust kom fram beiðni um það í utanríkismálanefnd að það yrði kynnt þar áður en það yrði sent og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, (Forseti hringir.) sem fer með það mál, mun að sjálfsögðu gera það. (Forseti hringir.) Komi til þess að bréfið verði yfirleitt sent verður það að sjálfsögðu kynnt viðeigandi þingnefndum.